Viðskipti innlent

Stím-málið: „Jón Ásgeir er á djöflamergnum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson vísir/valli
Einstaka símtal hefur verið spilað fyrir dómi við aðalmeðferð Stím-málsins seinustu daga. Slíkt var gert í dag þegar Guðný Sigurðardóttir, sem var lánastjóri hjá Glitni fyrir hrun, gaf skýrslu.

Guðný útbjó lánaskjöl vegna 20 milljarða króna láns Glitnis til Stím í nóvember 2007 en Lárus Welding er ákærður í málinu fyrir umboðssvik vegna lánveitingarinnar.

Fram kom við skýrslutökuna að Guðný hefði unnið mikið með Elmari Svavarssyni vegna Stím-viðskiptanna. Hann var verðbréfamiðlari hjá Glitni en lánið sem var veitt til Stím var notað til að kaupa hlutabréf af Glitni í bankanum sjálfum og FL Group. 

Sagði Jón Ásgeir vera að vinna í málinu

Elmar var kallaður fyrir dóminn sem vitni en neitaði alfarið að tjá sig samkvæmt ráðleggingum lögfræðings síns en Elmar hefur réttarstöðu sakbornings í öðrum málum sem eru til rannsóknar.

Hann var því ekki spurður út í orð sín í símtali við Guðnýju þann 13. nóvember 2007, þremur dögum áður en áhættunefnd Glitnis samþykkti lánið til Stím.

Elmar: Jón Ásgeir er á djöflamergnum.

Guðný: Hvað segirðu, Jón Ásgeir?

Elmar: Á djöflamergnum, on the motherfucker.

Skömmu síðar í samtalinu segir Elmar að Jón Ásgeir sé að vinna í málinu og segir Guðnýju að á meðan séu þau á hold.

Man ekki hver fól henni að vinna að lánamálum Stím

Saksóknari spurði Guðnýju hvort hún gæti útskýrt orðalagið á djöflamergnum en hún gat ekki gert það. Þá var hún spurð hvort að Jón Ásgeir hafi verið að vinna í Stím-málinu á þessum tímapunkti. Svaraði Guðný því til að miðað við símtalið hafi Elmar verið í einhverjum samskiptum við Jón Ásgeir en hún kvaðst ekki muna nákvæmlega eftir þessu.

Á þessum tíma var Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður FL Group sem var stærsti eigandi Glitnis banka. Hann bar vitni í Stím-málinu á miðvikudaginn en kvaðst ekki hafa komið að viðskiptunum á neinn hátt.

Þá mundi hann ekki eftir því að hafa verið stjórnarformaður FL Group í nóvember 2007. Símtal Elmars og Guðnýjar var ekki spilað fyrir Jón Ásgeir en hann gaf skýrslu í gegnum síma.

Við skýrslutökuna kvaðst Guðný ekki muna hver það hafi verið innan Glitnis sem fól henni að vinna að lánamálum Stím. Þá mundi hún hvorki sérstaklega eftir því að hafa unnið með Lárusi Welding vegna málsins né gat hún staðfest að hann hafi stýrt því innan bankans.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×