Innlent

Þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands Vísir/GVA
Hæstiréttur staðfesti í dag þriggja og hálfs árs fangelsisdóm yfir Ingvari Dór Birgissyni fyrir að hafa tvívegis beitt 14 ára gamalli stúlku kynferðisofbeldi.

Ingvar Dór var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur haustið 2013 en Hæstiréttur ómerkti dóminn og krafðist þess að aðalmeðferð málsins færi fram á nýjan leik vegna verulegra annmarka á rannsókn málsins. Hæstiréttur hefur nú staðfest þriggja og hálfs árs fangelsi yfir manninum.

Ingvar Dór var 25 ára þegar brotin voru framin á heimili mannsins í miðborg Reykjavíkur. Stúlkan var 14 ára gömul þegar brotin áttu sér stað í mars og apríl 2010. Í fyrra skiptið áreitti hann hana kynferðislega en í hið síðara nauðgaði hann henni.

Framburður hins ákærða talinn ótrúverðugur.

Hinn ákærði neitaði sök en fyrir lá að hann og brotaþoli hefðu átt í samskiptum á samfélagsmiðlum. Neitaði hann því að stúlkan hefði komið heim til sín þrátt fyrir að stúlkan gæti gefið greinargóðar lýsingar á húsnæði hans.

Einnig segir í dóminum að mynd hafi fundist af bakhluta mannveru sem liggur nakinn í rúmi í síma hins ákærða. Brotaþoli hafði borið um það fyrir dómi á fyrri stigum málsins að Ingvar Dór hefði tekið mynd af sér án klæða og telur hún sig bera kennsl á sig á myndinni. Ingvar Dór kannaðist við að myndin væri í síma hans og að hún væri af viðkomandi.

Í dómi Hæstaréttar segir að framburður hins ákærða hafi þótt ótrúverðugur og að það þyki fullsannað að hinn ákærði hafi framið þau kynferðisbrot sem honum voru gefin að sök. Staðfesti Hæstiréttur þriggja og hálfs árs fangelsisdóm yfir Ingvari Dór auk þess sem að hann þarf að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talinn málsvarnarlaun verjenda síns og þóknun réttargæslumanns þolenda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×