Körfubolti

Hörður Axel: Við erum ekki í túristaferð í Berlín

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði níu stig í dag.
Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði níu stig í dag. vísir/valli
Hörður Axel Vilhjálmsson átti fínan leik gegn Serbíu með Íslandi á EM 2015 í körfubolta í dag. Hann skoraði níu stig á 18 mínútum en það dugði ekki til.

„Þetta er eitt af þremur bestu liðum heims. En við héldum áfram að berjast sama hvað gerðist og fyrir það viljum við standa,“ sagði Hörður Axel við Vísi eftir leikinn í Berlín.

Íslenska liðið var virkilega gott í fyrri hálfleik en eftir 20 mínútur munaði aðeins tíu stigum á liðunum.

„Við erum ánægðir með það, en ef skotin hefðu dottið í fyrri hálfleik hefði leikurinn getað breyst. En þeir nýttu sér stærðarmuninn og er í raun fyrsta liðið sem nær að gera það almennilega. Þetta var erfitt í dag,“ sagði Hörður Axel.

„Við erum búnir að stríða tveimur liðum hingað til þó það hafi ekki gengið í dag. Fyrri hálfleikurinn var samt frábær. Ef við hefðum hitt á venjulegan dag hvað varðar skotin hefði þetta verið enn jafnari leikur.“

„Við getum gengið stoltir frá þessum leik þó það sé skrítið að segja það eftir að tapa með 30 stigum. Serbar eru bara það góðir.“

Næst mætir íslenska liðið stjörnum prýddu liði Spánar á morgun. Þar ætla strákarnir okkar áfram að berjast fyrir sínu.

„Nú er bara áfram gakk. Við gleymum þessum leik. Við förum upp á hótel og slökum á. Spánn er eins og Serbía með frábært lið. Við höldum bara áfram að berjast og sjáum hvernig þeir mæta okkur,“ sagði Hörður.

„Ég held við séum búnir að sýna öllum að við erum með alvöru lið. Við erum ekki í neinni túristaferð í Berlín. Við erum sáttir með það sem við höfum gert en við ætlum okkur að vinna leik hérna,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×