Handbolti

Bjarki hetja Füchse Berlin gegn Evrópumeisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már skoraði sigurmark Füchse Berlin gegn Barcelona í dag.
Bjarki Már skoraði sigurmark Füchse Berlin gegn Barcelona í dag. vísir/getty
Bjarki Már Elísson tryggði Füchse Berlin sigur á Evrópumeisturum Barcelona í undanúrslitum á HM félagsliða í Katar í dag.

Þýska liðið, sem Erlingur Richardsson stýrir, var tveimur mörkum undir þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Berlínarrefirnir tóku hins vegar við sér undir lokin og skoruðu þrjú síðustu mörk leiksins, en Bjarki gerði síðustu tvö mörkin. Lokatölur 26-25, Füchse Berlin í vil.

Bjarki skoraði alls fjögur mörk í leiknum en hann kom til Füchse Berlin frá Eisenach fyrir þetta tímabil.

Petar Nenadic var markahæstur í liði Füchse Berlin með átta mörk. Liðið mætir annað hvort Sydney University eða Veszprém í úrslitaleik mótsins á fimmtudaginn.

Kiril Lazarov var langmarkahæstur í liði Barcelona með 11 mörk. Guðjón Valur Sigurðsson komst ekki á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×