Erlent

ISIS-liðar hengdir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
470 lík fundust í tólf fjöldagröfum.
470 lík fundust í tólf fjöldagröfum. vísir/epa
Dómstóll í Bagdad í Írak hefur dæmt tuttugu og fjóra menn til dauða fyrir morð á hundruðum írakskra hermanna í borginni Tikrit í júní í fyrra. Mennirnir eru sagðir tengjast hryðjaverkasamtökunum ISIS.

Um 1.700 hermenn féllu þegar ISIS-liðar lögðu undir sig Speicher, fyrrverandi herstöð Bandaríkjahers, í fyrrasumar. Tæplega fimm hundruð lík fundust í tólf fjöldagröfum í Tikrit í apríl en talið er að fleiri fjöldagrafir séu að finna í nágrenni borgarinnar. Þá er talið að einhverjum líkum hafi verið varpað í Tígrisfljót.

Yfir sex hundruð vígamenn eru grunaðir um aðild að morðunum. Tuttugu og fjórir voru ákærðir, en lýstu þeir allir yfir sakleysi sínu við upphafi réttarhaldanna. Þeir voru í dag dæmdir til dauða og verða hengdir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×