Innlent

"Vissum ekki að landbúnaðarráðherra færi með kjaramál“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þingmenn stjórnarandstöðunnar kalla Sigurð Inga Jóhannsson kjaramálaráðherra þessa stundina
Þingmenn stjórnarandstöðunnar kalla Sigurð Inga Jóhannsson kjaramálaráðherra þessa stundina vísir/vilhelm
Umræða um frumvarp ríkisstjórnarinnar um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga er hafin í þinginu. Samþykkt hefur verið að koma á kvöldfundi.

„Við höfum lengi kallað eftir því að fram færi samtal og umræða um þessi mál en við höfum greinilega talað við vitlausa menn. Við gerðum okkur ekki grein fyrir því að hæstvirtur ráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, færi með kjaramál. Því spyr ég nú, hví varð landbúnaðarráðherra ekki við kröfum okkar um að taka kjaramál til umræðu?“ spurði Guðmundur Steingrímsson í kjölfar þess að Sigurður Ingi Jóhannsson hafði lokið framsögu sinni.

Ráðherrann sagði að það væri ekki við hæfi að tala um þessi mál af léttúð. Þeir þingmenn sem tekið hafa til máls í kjölfarið hafa ítrekað talað um Sigurð Inga sem kjaramálaráðherra.

Gera athugasemdir við gerðardóminn

Gerðar hafa verið athugasemdir, meðal annars af Steingrími J. Sigfússyni og Kristjáni L. Möller, við þau skilyrði sem gerðardómi eru sett og hvernig hann skal skipaður. Í frumvarpinu er tekið fram að Hæstiréttur skuli skipa þrjá nefndarmenn sem muni sitja í dómnum.

„Þetta er enginn gerðardómur sem inniheldur aðila deilunnar og einn oddamann. Þetta er nefnd skipuð af Hæstarétti,“ sagði Steingrímur J. Einnig hefur verið sett út á það fyrirkomulag að komi til starfa gerðardóms eigi hann að hafa hliðsjón af kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí þessa árs en slíkt útilokar að tillit verði tekið til samninga sem læknar undirrituðu.

„Ég segi til dæmis fyrir mitt leyti nú þegar ég er loksins búinn að sjá þetta frumvarp, að í því samráði hefði til dæmis komið fram tillaga um að væntanlegum gerðardómi, ef hann þyrfti að taka til starfa, bæri þá að taka mið af þeim samningum sem ríkisstjórnin hefur gert. Nefni ég þá læknasamninga og kennarasamninga. Af hverju eru þeir ekki hér inni? Hér er nefnilega dagsetning sett inn í frumvarpið til þess að þeir samningar komi ekki til álita hjá gerðardómi,“ sagði Kristján L. Möller í umræðum um fundarstjórn forseta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×