Viðskipti innlent

Búist við kynningu á 40 prósenta stöðugleikaskatti í ríkisstjórn

ingvar haraldsson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. vísir/gva
Leggja á 40 prósent stöðugleikaskatt á eignir slitabúa föllnu bankanna takist þeim ekki að ljúka nauðasamningum sem ógna ekki greiðslujöfnuði Íslands á næstu vikum. Frá þessu er greint í DV í dag.

Þá er einnig fullyrt að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra muni kynna áætlun um afnám hafta á ríkisstjórnarfundi í sem hefst klukkan 9:30 í dag.

Til þess að nauðasamningar fáist samþykktir gætu erlendir kröfuhafar föllnu bankanna þurft að gefa eftir yfir 500 milljarða króna. Heildarvirði eigna þeirra nam um 2.200 milljörðum í árslok 2014. Þar af eiga erlendir aðilar um 94 prósent allra samþykktra krafna samkvæmt því sem fram kemur í DV.

Haftaáætlun kynnt opinberlega á mánudag

Þá standi til að kynna fjölmiðlum áætlun um afnám hafta á mánudag. Þá kynningu sjái Halldór Benjamín Þorbergsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Icelandair. Hann sá einnig um kynningu á Leiðréttingu ríkisstjórnarinnar í nóvember síðastliðnum. Skömmu áður eigi að kynna málið fyrir oddvitum stjórnarandstöðunnar.

Einnig er fullyrt að leggja eigi fram 5 til 6 frumvörp sem snúa að afnámi hafta. Þau verði þó ekki öll kynnt nú heldur standi til að leggja mörg þeirra fram á komandi haustþingi.

Stjórnvöld eru ekki sögð hafi hug á því að eignast hluti slitabúanna í Arion banka og Íslandsbanka en ríkið á fyrir nær allt hlutafé í Landsbankanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×