Körfubolti

Kæru Njarðvíkur vísað frá | Stjarnan leikur í efstu deild

Sara Diljá er hér fyrir miðju.
Sara Diljá er hér fyrir miðju. vísir/valli
Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ er búin að taka fyrir kærumál Njarðvíkur gegn Stjörnunni út af oddaleik í úrslitakeppni 1. deildar kvenna.

Njarðvík hélt því fram að Stjarnan hefði teflt fram ólöglegum leikmanni í leiknum. Því var nefndin ekki sammála og vísaði frá öllum kröfum Njarðvíkinga.

„Aðalkröfu Njarðvíkur um að úrslit í leik Njarðvíkur og Stjörnunnar í 1. deild kvenna, sem leikinn var þann 14. apríl 2015, verði dæmd ógild og Njarðvík dæmdur sigur 20-0 er hafnað. Varakröfu Njarðvíkur um að að úrslit í leik Njarðvíkur og Stjörnunnar í 1. deild kvenna, sem leikinn var þann 14. apríl 2015, verði dæmd ógild og leikurinn leikinn að nýju er vísað frá," segir í dómnum.

Þar með er endanlega ljóst að Stjarnan leikur í efstu deild næsta vetur.

Njarðvík vildi meina að Sara Diljá Sigurðardóttir, leikmaður Stjörnunnar, hafi ekki mátt spila með Garðabæjarliðinu í umspilinu þar sem hún hafi verið á meðal sjö leikjahæstu kvenna Valsliðsins í úrvalsdeildinni.

Sara er á mála hjá Val en gerði venslasamning við Stjörnuna. Þeir eru notaðir fyrir stelpur sem fá minna að spila með úrvalsdeildarliðunum þannig þær fái mínútur í 1. deildinni.

Reglan er þannig að þær sjö konur sem spila flestar mínútur að meðaltali með hverju úrvalsdeildarliði mega ekki spila með venslaliðum.

Munurinn er ótrúlega lítill hjá Valsliðinu, en Sara Diljá er með 14 mínútur og 34 sekúndur að meðaltali í leik fyrir Val. Hún er sú sjöunda leikjahæsta, aðeins sjö sekúndum á undan Sóllilju Bjarnadóttur.

Ef bikarinn er tekinn með er Sara Diljá þó langt fyrir neðan sjöunda sætið og var því lögleg með Stjörnunni í úrslitaeinvíginu að mati aga- og úrskurðarnefndar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×