Skoðun

Hversu sterk þurfa rökin að vera?

Andrés Magnússon skrifar
Eins og ítrekað hefur komið fram að undanförnu, þá annar innlend framleiðsla á nautakjöti ekki þeirri eftirspurn sem nú er eftir þeirri vöru hér á landi. Ennfremur liggur það fyrir að innlend framleiðsla mun ekki á komandi árum geta annað hinni auknu eftirspurn sem er eftir nautakjöti. Það hafa nautgipabændur sjálfir viðurkennt.

Þrátt fyrir þetta hafa stjórnvöld enga tilburði uppi í þá átt að laga þessa stöðu. Þvert á móti leggjast þau kerfisbundið gegn öllum aðgerðum sem geta komið jafnvægi á nautakjötsmarkaðinn. Áfram eru óskir hagsmunaaðila um að fá að flytja inn nautakjöt, án himinhárra tolla, að engu hafðar. Tollar sem þó undarlegt megi virðast hækka í hlutfalli við hækkandi verð vörunnar á innanlandsmarkaði. Stjórnvöld hafa hingað til lagst gegn innflutningi á nýju kúakyni sem gæti, þegar fram líða stundir, gert innlenda framleiðendur ágætlega í stakk búna til að framleiða meira af nautakjöti en þeir nú geta.

Þessi staða er enn eitt dæmið um þá algeru stöðnun sem ríkir hér á landi í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Þegar innanlandsframleiðsla getur ekki annað eftirspurn, á að heimila innflutning án þess að varan sé ofurtolluð, svo einfalt er það. Með þessum háu tollum eru stjórnvöld enn á ný að misbjóða hagsmunum almennings í landinu. Íslenskir neytendur eiga heimtingu á því að hagsmunir þeirra séu ekki hunsaðir af stjórnvöldum eins og gert er í þessu tilfelli.

Það er því von að spurt sé: Hversu sterk þurfa rökin að vera til þess að hreyfa við stjórnvöldum? Hvar eru málsvarar frjálsra viðskipta? Er það virkilega þannig að meðal alþingismanna er enginn sem vill láta til sín taka í þessu máli? Því verður ekki trúað að óreyndu.




Skoðun

Sjá meira


×