Lífið

Skólarnir slógust um Rannveigu

Baldvin Þormóðsson skrifar
Rannveig Marta Sarc er hæfileikarík tónlistarkona sem lifir fyrir tónlistina.
Rannveig Marta Sarc er hæfileikarík tónlistarkona sem lifir fyrir tónlistina. Fréttablaðið/Stefán
„Þetta var alveg það skemmtilegasta sem ég hef gert á ævinni,“ segir Rannveig Marta Sarc en hún sótti um í sex tónlistarháskóla í Bandaríkjunum og fékk inngöngu í þá alla.

„Ég ákvað að fara í Juilliard eftir að þeir buðu mér fullan skólastyrk,“ segir Rannveig en skólarnir þurftu að bjóða sín á milli í unga fiðluleikarann.

„Ég fékk tilboð frá Juilliard og síðan annað betra frá Oberlin Conservatory þannig að þegar ég sagði þeim frá því tilboði þá buðu þeir mér bara hærra,“ segir Rannveig en hún þarf þá ekki að borga nein skólagjöld alla sína skólagöngu í Juilliard. „Ég skil ekki alveg hvernig það gerðist,“ segir fiðluleikarinn og hlær.

„Það var samt ótrúlega erfið ákvörðun að velja skóla því þeir eru allir frábærir og hafa sína kosti og galla,“ segir Rannveig en hún vildi velja skóla á réttum forsendum. „Ég valdi Juilliard en ekki bara út af nafninu, þar var kennari sem mér leist á og svo buðu þeir mér þennan styrk og þá lá þetta bara fyrir.“

Rannveig hefur spilað á fiðlu síðan hún var fjögurra ára en Guðný Guðmundsdóttir hefur kennt henni í Tónlistarskólanum í Reykjavík undanfarin sex ár. Rannveig segist samt ekki hafa verið mjög áhugasöm um tónlist í byrjun.

„Báðir foreldrar mínir eru tónlistarmenn og mér fannst stundum eins og það væri verið að ýta mér út í þetta og þá streittist ég á móti,“ segir Rannveig. „Síðan fyrir svona þremur árum kviknaði áhuginn fyrir alvöru og þá gat ég ekki hugsað mér lífið án tónlistar.“

Ferðalag Rannveigar á milli háskólanna segir hún hafa stundum geta tekið á. „Að ferðast einn allan tímann og hugsa um alla þessa hluti en samt að þurfa að halda einbeitingunni getur tekið á,“ segir Rannveig. „Maður þarf að spila eins vel og maður getur við mjög stressandi kringumstæður.“

Ungi fiðluleikarinn byrjar í Juilliard í haust og segist Rannveig vera mjög spennt fyrir að flytja út til New York. „Fyrsta árið bý ég á heimavistinni, síðan flytur maður kannski í miðbæinn,“ segir Rannveig Marta og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×