Íslenski boltinn

Ljúft að bregðast við kalli Gumma Ben

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Willum var síðast þjálfari Leiknis árið 2012 en hóf störf á alþingi í fyrra.
Willum var síðast þjálfari Leiknis árið 2012 en hóf störf á alþingi í fyrra. fréttablaðið/daníel
„Það þurfti að bregðast skjótt við og maður þurfti að hrökkva eða stökkva. Þá vill maður gjarnan stökkva,“ segir Willum Þór Þórsson, knattspyrnuþjálfari og þingmaður Framsóknarflokksins. Hann var í vikunni ráðinn aðstoðarþjálfari Guðmundar Benediktssonar sem tekur við þjálfun Breiðabliks í Pepsi-deild karla í byrjun júnímánaðar.

Guðmundur tekur við starfinu af Ólafi Kristjánssyni sem mun halda til Danmerkur um mitt sumar og þjálfa Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni.

„Þetta var útkall sem kom eftir að fréttin um Óla spurðist út. Ég er þakklátur fyrir tækifærið og traustið sem mér er sýnt. Guðmundur sýndi mér hollustu og mikinn stuðning, bæði sem leikmaður og aðstoðarþjálfari, og mér er ljúft að geta brugðist við nú,“ sagði Willum sem starfaði með Guðmundi hjá Val og KR á sínum tíma.

Willum segist hafa sett þjálfaraferilinn til hliðar þegar hann hóf þingstörf enda fátt annað sem kemst að.

„Svo kom þetta tækifæri og fyrst þetta var aðstoðarþjálfarastarf leit ég svo á að það gæti gengið upp. Óli fer út í byrjun júní og ég sá fyrir mér að ég gæti komið inn þegar þingið fer í sumarfrí. En svo er spurning hvort það verði sett á sumarþing – maður verður bara að vona það besta,“ bætir hann við.

Willum er ekki fyrsti þingmaðurinn sem starfar einnig sem knattspyrnuþjálfari en Ingi Björn Albertsson sinnti báðum störfum á sínum tíma.

„Ég var einmitt leikmaður Breiðabliks þegar Ingi Björn var á þingi og þjálfaði liðið. Ég tel þó að það hafi ýmislegt breyst síðan þá og að nú sé mun minna um að þingmenn sinni öðrum störfum með. Það fylgir því mikil ábyrgð og vinna að starfa á þingi og fátt annað sem kemst að.“

Willum hefur fylgst með íslenska boltanum úr fjarlægð síðustu mánuðina og líst vel á lið Breiðabliks.

„Liðið er komið á þann stað í sinni tilveru að það á að keppa um titla á hverju ári, enda hefur það gott starf verið unnið í félaginu síðustu árin.“

Willum er margreyndur þjálfari sem gerði KR tvívegis að Íslandsmeistara (2002 og 2003) og endurtók svo leikinn með Valsmönnum árið 2007. Hann var síðast þjálfari Leiknis í 1. deildinni árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×