Viðskipti innlent

Ísland 67 - ESB 14

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Víða í Evrópu er vindorka beisluð til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa.
Víða í Evrópu er vindorka beisluð til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Fréttablaðið/AP
Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í endanlegri orkunotkun aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) var að meðaltali 14,1 prósent árið 2012. Þetta kemur fram hjá Samorku sem vísar í nýbirtar tölur evrópsku hagstofunnar Eurostat.

Aukning frá árinu 2004 er sögð nema 8,3 prósentum. „Flest aðildarríkin hafa náð ágætum árangri í að auka þetta hlutfall í samræmi við áætlun ESB fyrir hvert ríki, en sem kunnugt er stefnir ESB á að meðaltalið verði 20 prósent árið 2020,“ segir á vef Samorku og bent á að um þessar mundir sé rætt um nýtt markmið fyrir árið 2030. „Og hefur framkvæmdastjórnin lagt til að stefnt verði á 27 prósent.“

Hæsta hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun innan ESB er í Svíþjóð eða 51 prósent, en næst kemur Lettland með 36 prósent, Finnland með 34 prósent og Austurríki með 32 prósent. Lægst er hlutfallið á Möltu, 1,4 prósent, en þar fyrir ofan eru Lúxemborg með 3,1 prósent og Bretland með 4,2 prósent.

Til samanburðar er bent á að hér á landi sé hlutfallið 67 prósent og í Noregi 64,4 prósent. „Á Íslandi eru 99,9 prósent allrar raforku framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum sem og um 99 prósent allrar orku til húshitunar, en við flytjum inn jarðefnaeldsneyti einkum til notkunar í samgöngum og sjávarútvegi.“

Hér má sjá umfjöllunina á vef Samorku og hér má sjá tölur Eurostat í PDF-skjali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×