Lífið

Tilnefndur til færeysku tónlistarverðlaunanna

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Svavar Knútur á eitt vinsælasta lag síðasta árs í Færeyjum.
Svavar Knútur á eitt vinsælasta lag síðasta árs í Færeyjum.
„Þetta er æðislegt. Mér finnst ótrúlega gaman að vera tilnefndur. Það er mikill heiður,“ segir tónlistarmaðurinn Svavar Knútur. Hann er tilnefndur, ásamt færeyska tónlistarmanninum Marius, fyrir lag ársins 2013 á færeysku tónlistarverðlaununum, Faroe Music Awards, sem veitt eru í fyrsta sinn núna á laugardaginn. Lagið heitir Tokan og hefur verið afar vinsælt í Færeyjum.

„Við kynntumst í söngvaskáldasmiðju á Sámsey í Danmörku en okkur var báðum boðið í hana af hátíðinni Copenhagen Songwriting Festival. Við vorum settir saman í að semja lag og ákváðum að gera lag sem sameinar íslenska og færeyska reynslu, upplifun og sýn. Lagið var samið bæði á íslensku og færeysku og sungið á báðum tungumálum til skiptis. Við tókum upp tvær útgáfur af laginu, hans útgáfu og mína. Mín útgáfa er kammerútgáfa og hans meira rokk og elektróník. Hans útgáfa fór í útvarp en við gerðum myndband við mína útgáfu,“ segir Svavar Knútur sem hefur aldrei verið tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna.

„Nei, ég er ekki töff á Íslandi.“

Tónlistarmaðurinn getur ekki verið viðstaddur hátíðina á laugardaginn þar sem hann flýgur til Þýskalands á sunnudag á tónleikaferðalag í tvo og hálfan mánuð. Hann yfirgefur samt ekki Ísland án þess að kveðja landsmenn.

„Ég verð með kveðjutónleika í kvöld á Rosenberg. Ég verð með hljómsveit í fyrsta sinn í mörg ár og ætla að flytja alls konar efni.“

)





Fleiri fréttir

Sjá meira


×