Viðskipti innlent

Greenland Express aflýsti aftur fyrsta fluginu

Haraldur Guðmundsson skrifar
Greenland Express ætlar að fljúga frá Akureyri tvisvar í viku.
Greenland Express ætlar að fljúga frá Akureyri tvisvar í viku. Vísir/Völundur
Fyrsta flugi Greenland Express frá Akureyri til Kaupmannahafnar var aflýst í gær í fjórða skipti. Fyrirtækið ætlar nú að hefja áætlunarflugið 16. júlí næstkomandi.

Gert Brask, stofnandi og forstjóri Greenland Express, segir hollenska fyrirtækið Denim Air, sem á flugvélina sem grænlenska flugfélagið hefur leigt fyrir ferðirnar, ekki hafa náð að manna áhöfn vélarinnar sem átti að fara frá Akureyri í gær. Hann segir fáa farþega hafa átt bókað flug.

„En það er rétt að við ætlum að hefja flugið 16. júlí,“ segir Brask.

Áætlunarflugið átti upphaflega að hefjast 2. júní síðastliðinn. Í fréttatilkynningu sem birtist á heimasíðu Greenland Express þann dag sagði að fyrirtækið biði þá enn eftir flughæfnisskírteini flugvélarinnar.

Fluginu var þá frestað til 11. júní, þar á eftir til 25. júní og síðan til 2. júlí.

Upphaflegar áætlanir fyrirtækisins gerðu ráð fyrir áætlunarflugi milli Grænlands og Danmerkur með viðkomu á Íslandi. Flugfélagið hefur yfir tveimur flugvélum að ráða en vélin sem á að fara frá Akureyri er nýuppgerður Fokker-100 sem tekur 100 manns í sæti. Fljúga á tvisvar í viku allt árið frá Akureyri til Kaupmannahafnar og þaðan til Álaborgar.

Síðastliðinn vetur var greint frá því að íslenska flugfélagið Air Arctic, áður Eyjaflug, ætlaði sér að verða stór hluthafi í Greenland Express og jafnvel sameinast grænlenska flugfélaginu.

„Það stóð til en við létum það ganga til baka,“ segir Bergur Axelsson, einn af fyrrverandi eigendum Air Arctic. Hann segir að flugfélagið sé ekki lengur í rekstri.

Einar Aðalsteinsson, annar fyrrverandi eigandi Air Arctic, er starfsmaður Greenland Express á Íslandi. Ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×