Innlent

Oddvitaáskorunin - Á Akureyri er best að búa

Vísir stendur fyrir Oddvitaáskoruninni 2014 þar sem skorað er á oddvita allra flokka í kjördæmum um land allt að taka þátt.

Margrét Helgadóttir leiðir lista Bjartrar framtíðar á Akureyri í sveitarstjórnarkosningunum í vor.

„Ég er 31 árs gömul, lögmaður að mennt og móðir Sunnu, Helga og Bassa. Ég er sem stendur í meistaranámi í Opinberri stjórnsýslu og líkar það vel. Ég hef haft áhuga á stjórnmálum frá því að ég var unglingur og var aðeins 24 ára gömul komin með formennsku í nefnd á vegum Akureyrarbæjar ásamt því að vera varabæjarfulltrúi. Það sem heillar mig við stjórnmál eru samskiptin við fólk.

Mér finnst gaman að heyra hugmyndir annarra og hata það ekki ef einhver nennir að hlusta á mínar hugmyndir. Ég er algjör sökker fyrir góðu samstarfi og fæ iðulega gæsahúð þegar ég verð vitni af slíku, eins og þegar sjúkrabíll kemur akandi með ljósin á og allir fara út í kant, þegar fólk stoppar fyrir gangandi vegfarendum, þegar kór syngur vel saman eða stjórnmálaflokkar með mismunandi skoðanir komast að sameiginlegri ákvörðun.

Ég elska Akureyri. Ég vil hvergi annarsstaðar búa og er afskaplega þakklát fyrir að börnin mín fá að alast hér upp. Ég elska að það er hægt að labba hvert sem er innan Akureyrar, að umferðin er ekki meiri en hún er, að allur bærinn fréttir það ef einhver snýr sér hálfhring og á sama tíma að allur bærinn réttir fram hjálparhönd ef hálfhringurinn endar illa. Ég vil vinna fyrir íbúa Akureyrar.“

YFIRHEYRSLAN

Hver er fallegasti staðurinn á Íslandi?

Ef frá er talin Akureyri finnst mér Mývatnssveitin fallegust. Mér líður alltaf vel þegar ég er komin í Mývatnssveitina.

Hundar eða kettir?

Bara bæði. Mér er reyndar ekkert sértaklega vel við dýr. Ég er samt alveg næs manneskja.

Hver er stærsta stundin í lífinu?

Fæðing barnanna minna eru án efa stærstu stundirnar í mínu lífi.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Lambalæri eldað af pabba mínum – hægeldað. Nauðsynlegt að hafa pabbasósu líka með.

Hvernig bíl ekur þú?

Ég keyri um á Toyota auris og er að safna mér fyrir rafmagnsvespu eða metan bíl því ég er meira hrifin af því en að brenna jarðeldsneyti.

Besta minningin?

Þegar Summi bróðir minn og vinur hans áttu að passa mig en nenntu því ekki alveg og ég tók mig til og málaði hellurnar fyrir framan húsið okkar bláar. Sem er eitthvað sem maður gerir þegar maður er 7 ára. Þeir vinirnir redduðu sér samt frá þessu með því að snúa öllum hellunum við. Mig grunar samt að mamma og pabbi hafi strax fattað þetta.

Hefur þú verið tekinn af lögreglunni?

Eeeeeeeee einhverntímann þegar ég var í miðbæ Akureyrar á föstudagskvöldi og ekki orðin 16 ára. Telst það með?

Hverju sérðu mest eftir?

Það er ekki margt sem ég sé eftir, öll reynsla hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ef ég ætti að nefna eitthvað væri það að ég vildi helst að ég hefði staðið meira með sjálfri mér.

Hefur þú viðurkennt mistök?

Já. Mér finnst mannleiki fallegur og við gerum öll mistök.

Draumaferðalagið?

Mér finnst eins og ég ætti að segja eitthvað stórfenglegt um exótísk lönd, en eins og staðan er núna dreymir mig mest um að fara í sumarbústað með börnunum mínum þar sem dagurinn snýst um að fara út í gönguferðir, sund, spila, borða góðan mat og hlægja.

Hefur þú migið í saltan sjó?

Nei ég á það eftir. Reyndar pissaði ég næstum því á mig þegar við í Bjartri framtíð tókum áskorun um að stökkva í sjóinn um daginn!

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur gert?

Þegar ég og vinkona mín stofnuðum Sápukremjarafélagið. Þegar sápustykkin eru orðin lítil og ræfilsleg skuldbindur félagsmaður sig til að kremja sápuna. Vanmetið og stórbrotið félag.

Hverju ertu stoltastur af?

Svo ég komi með klisjulegt svar – ég er stoltust af börnunum mínum! Þau eru það besta í mínu lífi.

Fram að sveitarstjórnarkosningunum 31. maí munum við birta kynningu á oddvitum víðsvegar um landið. Allir oddvitar geta tekið þátt í Oddvitaáskorun Vísis. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á netfanginu samuel@365.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×