Íslenski boltinn

Spá FBL og Vísis: Fram hafnar í 8. sæti

Bjarni Guðjónsson, þjálfari Fram.
Bjarni Guðjónsson, þjálfari Fram. vísir/vilhelm
Fram er einfaldlega stærsta spurningamerkið fyrir tímabilið enda kemur liðið gríðarlega mikið breytt til leiks, með nýjan þjálfara og hreinlega nýja stefnu í sínum knattspyrnumálum.

Bjarni Guðjónsson lagði skóna á hilluna hjá KR og var ráðinn þjálfari Framara en hann hefur ferilinn hjá einu stærsta félagi landsins sem gat loksins fagnað titli í fyrra þegar liðið varð bikarmeistari eftir 23 ára eyðimerkurgöngu.

Bjarni hefur algjörlega breytt liðinu hjá Fram og fékk til sín mikið af ungum strákum og mikið af leikmönnum sem spilað hafa í neðri deildum. Verkefnið er virkilega spennandi í Safamýrinni en svo á eftir að sjá hvort það gangi upp þar sem hópurinn er nýr og þjálfarinn reynslulaus.

Liðið byrjaði frábærlega undir stjórn Bjarna og vann Reykjavíkurmótið þar sem það spilaði vel en vegna meiðsla og annarra hluta hefur spilamennska Framara dalað mikið undanfarið og vann það aðeins tvo leiki í Lengjubikarnum.

Gengi Fram síðustu sex tímabil:

2008 (3. sæti)

2009 (4. sæti)

2010 (5. sæti)

2011 (9. sæti)

2012 (10. sæti)

2013 (10. sæti)

Íslandsmeistarar: 18 sinnum (síðast 1990)

Bikarmeistarar: 7 sinnum (síðast 2013)

Tölur Fram í Pepsi-deildinni 2013:

Mörk skoruð: 6. sæti (1,7 í leik)

Mörk á sig: 1. sæti (1,1 í leik)

Stig heimavelli: 7. sæti (17 af 33, 51%)

Stig á útivelli: 1. sæti (26 af 33, 79%)

Nýju mennirnir:

Alexander Már Þorláksson (ÍA)

Arnþór Ari Atlason (Þrótti)

Ásgeir Marteinsson (HK)

Einar Bjarni Ómarsson (KV)

Einar Már Þórisson (KV)

Guðmundur Magnússon (Víkingi Ó.)

Guðmundur Steinn Hafsteinsson (Víkingi Ó.)

Hafsteinn Briem (Haukum)

Hafþór Mar Aðalgeirsson (Völsungi)

Hörður Fannar Björgvinsson (Stjörnunni)

Jóhannes Karl Guðjónsson (ÍA)

Ósvald Jarl Traustason (Breiðabliki)

Tryggvi Sveinn Bjarnason (Stjörnunni)

Almarr Ormarsson yfirgaf Fram og leikur nú með KR.Vísir/pjetur


EINKUNNASPJALDIÐ:

Vörnin: 2 stjörnur


Varnarlínan sem stóð sig ágætlega í fyrra miðað við hin liðin í fallbaráttunni er horfin á braut. Ólafur Örn Bjarnason er hættur og farinn að þjálfa í Noregi, Bjarni Hólm Aðalsteinsson er meiddur og óvíst með hann í sumar, Jordan Halsman fór í Breiðablik og Alan Lowing í Víking. Hluti af þessum miklu breytingum hjá Fram.

Framarar fengu Tryggva Svein Bjarnason frá Stjörnunni sem var sniðugt. Öflugur leikmaður þar á ferð sem þyrstir í að sýna sig og sanna eftir bekkjarsetu hjá Stjörnunni. Hann verður líklega við hlið Einars Bjarna Ómarssonar í miðverðinum í byrjun móts en Einar spilaði síðast í 2. Deild og er miðjumaður að upplagi.

Ósvald Jarl Traustason er kominn í vinstri bakvörðinn en það er spennandi ungur leikmaður sem kemur frá Breiðabliki. Hann skortir þó reynslu í efstu deild. Þá hefur Viktor Bjarki Arnarsson verið prófaður í hægri bakverðinum að undanförnu og verður mjög líklega þar, allavega í byrjun móts.

Varnarleikurinn gæti orðið vandræði hjá Fram en til allrar hamingju fyrir liðið fór Ögmundur Kristinsson ekki í atvinnumennsku. Það gerir mikið fyrir Framara að hafa hann áfram á milli stanganna.

Sóknin: 2 stjörnur

Framarar seldu markahrókinn Hólmbert Aron Friðjónsson í atvinnumennsku eftir síðasta tímabil en hann skoraði 10 mörk í deildinni. Þá er Kristinn Ingi Halldórsson einnig farinn í Val en hann skoraði ellefu mörk tímabilið þar áður og Almarr Ormarsson, sem skilaði alltaf nokkrum mörkum af miðjunni og af kantinum, er einnig farinn en hann samdi við KR.

Þetta er mikil blóðtaka en Bjarni fékk tvo unga en kraftmikla framherja sem spiluðu með Ólafsvík í fyrra: Guðmund Stein Hafsteinsson og Guðmund Magnússon. Þó þeir séu duglegir leikmenn og frambærilegir í efstu deild þá tala tölurnar sínu máli. Þeir skoruðu samtals fjögur mörk í 36 leikjum fyrir Ólsara í fyrra. Þó má ekki gleyma að Ólsarar spiluðu engan leiftrandi sóknarbolta.

Úti á vængjunum verða Haukur Baldvinsson, Aron Bjarnason, Aron Þórður Albertsson og hinn stórefnilegi Ásgeir Marteinsson. Þeir hafa allir hæfileika til að styðja við sóknarleikinn en þurfa að sýna það í sumar ætli liðið að skora einhver mörk.

Þjálfarinn: 2 stjörnur

Bjarni Guðjónsson er reynslulaus sem þjálfari en hefur aftur á móti gríðarlega reynslu sem leikmaður og fyrirliði eins besta liðs landsins undanfarin ár. Stjórnunarhæfileikar hans eru óumdeildir og fótboltaþekking hans mikil.

Hann fór líka mjög vel af stað eins og áður segir og vann Reykjavíkurmótið en mikið jákvæðni var í kringum Fram-liðið á þeim tímapunkti. Jákvæðnin hefur ekkert minnkað þó gengið hefur ekki verið jafngott að undanförnu.

Margir frábærir knattspyrnumenn hafa ekki staðið sig sem þjálfarar en það er alltaf spennandi þegar lið taka séns á nýjum mönnum sem koma með eitthvað nýtt inn í deildina. Hvað þá þegar þeir gera hreinsanir eins og sést hefur í Safamýrinni og ætlar að byggja upp nýtt lið frá grunni.

Breiddin: 3 stjörnur

Bjarni hefur úr fínum hópi leikmanna að moða þó margir þeirra séu á bekknum séu ungir. En það er jú nokkurn veginn þar sem Bjarni vildi. Jóhannes Karl Guðjónsson, Hafsteinn Briem og Arnþór Ari Atlason verða líklega á miðjunni í fyrsta leik en þar getur Bjarni einnig notað Viktor Bjarka finnist afleysingamaður í bakvörðinn og þá á hann einnig Einar Bjarna Ómarsson sem langar vafalítið mun meira að spila á miðjunni.

Aron Bjarnason sýndi það í fyrrasumar að hann getur komið inn á og gert usla en þessi ungi leikmaður sem kom frá Þrótti á miðju sumri stóð sig mjög vel og sparkaði Hauki Baldvinssyni úr liðinu. Þá er einnig annar ungur og sprækur strákur, Aron Þórður Albertsson, í hópnum sem er árinu eldri en hann átti fína spretti síðasta sumar.

Liðsstyrkurinn: 3 stjörnur

Það þyrfti nánast nýja vefsíðu tiil að telja upp alla leikmennina sem Framarar fengu, kosti þeirra og galla. Bjarni fékk í heildina þrettán nýja leikmenn í staðin fyrir þá ellefu sem yfirgáfu Safamýrina.

Jóhannes Karl Guðjónsson er klárlega stærsta nafnið en það mun vafalítið reynast Bjarna dýrmætt að hafa lokkað bróður sinn með sér í Fram. Hann ætti svo sannarlega að geta verið límið sem heldur þessu unga en spennandi Fram-liði saman.

Arnþór Ari Atlason sem kom frá Þrótti hefur heillað marga á undirbúningstímabilinu og voru fleiri lið sem verða vafalítið ofar í töflunni á eftir honum. Þá mun Ásgeir Marteinsson sem kom frá HK og var kjörinn efnilegasti leikmaður 2. Deildar í fyrra eflaust reynast Frömurum vel en þar er á ferð snjall fótboltamaður.

Strákar eins og Tryggvi Sveinn Bjarnason, Hafsteinn Briem, Guðmundur Magnússon og Guðmundur Steinn Hafsteinsson eru allir með reynslu úr efstu deild og þeir þrír síðastnefndu eru engin unglömb lengur í fótboltaárum.

Hefðin: 3 stjörnur

Fram hefur verið samfellt í úrvalsdeild síðan liðið féll 2005 og kom rakleitt upp aftur. Þorvaldur Örlygsson breytti Fram úr félagi sem var alltaf að vesenast við botn deildarinnar í lið sem var í baráttu um Evrópusæti, líkt og forðum daga, þó erfiðlega hafi gengið undanfarin tvö ár.

Það gerði mikið fyrir Framara að vinna bikarmeistaratitilinn í fyrra enda hafði liðið beðið í heil 23 ár eftir titli. Það er löng bið fyrir félag sem státar af 18 Íslandsmeistaratitlinum og sjö bikarmeistaratitlum.

Lykilmaðurinn: Ögmundur Kristinsson

Frammistaða Ögmunds síðasta sumar var ein helsta ástæða þess að Fram hélt sæti sínu í deildinni en liðið fékk á sig langfæst mörkin af liðunum í kringum sig í fallbaráttunni ásamt Ólsurum.

Ögmundur hefur sýnt undanfarin tvö sumur að hann er orðinn einn af albestu markvörðum deildarinnar enda ekki að ástæðulausu að erlend lið báru víurnar í hann í vetur. Það var einfaldlega óheppni hjá honum að meiðast þannig ekkert varð úr neinum félagaskiptum en að sama skapi geta Framarar þakkað fótboltaguðunum fyrir í hljóði.

Með nýja varnarlínu fyrir framan sig verður eflaust nóg að gera hjá Ögmundi í sumar en það er líka allt í lagi á meðan hann spilar jafnvel og í fyrra.

Fylgist með þessum: Arnþór Ari Atlason

Strákur fæddur árið 1993 sem kom frá Þrótt í vetur. Mjög fljótur og hæfileikaríkur leikmaður sem slegið hefur í gegn með Fram á undirbúningstímabilinu en sparkspekingar sem sækja vetrarleikina hafa verið gríðarlega hrifnir af frammistöðu hans.

Lið í efri hluta deildarinnar höfðu áhuga á að fá hann til sín en Framarar voru svo heppnir að landa Arnþóri. Hann getur leyst margar stöður en er hvað bestur inni á miðjunni þar sem hann er að spila núna. Getur búið til færi fyrir samherjana og einnig skilað mörkum sem hann mun eflaust gera í sumar.

Spá Vísis og Fréttablaðsins fyrir Pepsi-deild karla sumarið 2014:

1. sæti ???

2. sæti ???

3. sæti ???

4. sæti ???

5. sæti ???

6. sæti ???

7. sæti ???

8. sæti Fram

9. sæti Keflavík

10. sæti Víkingur

11. sæti Fylkir

12. sæti Fjölnir


Tengdar fréttir

Spá FBL og Vísis: Keflavík hafnar í 9. sæti

Keflvíkingar verða áfram í neðri hluta Pepsi-deildarinnar ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis en liðið heldur þó sæti sínu í deildinni. Keflavíkurliðið er spurningamerki en það hefur þó verið að leika ágætlega á undirbúningstímabilinu.

Spá FBL og Vísis: Fjölnir hafnar í 12. sæti

Fréttablaðið og Vísir telur niður í Pepsi-deild karla í knattspyrnu sem hefst sunnudaginn 4. maí. Nýliðum Fjölnis er spáð neðsta sæti deildarinnar og þar með falli úr henni í haust.

Spá FBL og Vísis: Fylkir hafnar í 11. sæti

Ef marka má spá Fréttablaðsins og Vísis fyrir Pepsi-deildina í knattspyrnu 2014 þá lýkur fimmtán ára samfelldri veru Fylkis í úrvalsdeildinni í haust.

Spá FBL og Vísis: Víkingur hafnar í 10. sæti

Ef marka má spá íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis halda nýliðar Víkings sæti sínu í Pepsi-deild karla með naumindum en liðið er komið aftur í deild þeirra bestu eftir tveggja ára fjarveru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×