Enski boltinn

Rooney getur keypt einn Range Rover á dag eftir launahækkunina

Range Rover Evoque er myndarlegur bíll.
Range Rover Evoque er myndarlegur bíll.
Wayne Rooney er búinn að gera nýjan fimm og hálfs árs samning við Manchester United, samkvæmt frétt BBC fyrr í dag. Þar með er ljóst að enski landliðsframherjinn verður ekkert á neinum sultarlaunum til ársins 2019.

Rooney fær 300 þúsund pund í vikulaun eða 57 milljónir íslenskra króna. Hann er því með meira en átta milljónir í laun fyrir hvern dag næstu 66 mánuði.

Rooney er mikill aðdáandi Range Rover-jeppa og til að setja launin í eitthvað samhengi þá getur framherjinn keypt sér glænýjan Range Rover Evoque á hverjum degi til ársins 2019. Hann ætti þó reyndar ekki mikið eftir fyrir eldsneyti. Sem er synd.

Venjulegur vinnandi maður á Íslandi skilar um 40 tíma vinnuviku og ef við yfirfærum laun Rooney á slíka vinnskyldu þýðir það að hann er að að fá 1,4 milljónir á tímann.

Til viðmiðs má benda á að regluleg laun fullvinnandi launamanna á Íslandi voru 402.000 krónur að meðaltali árið 2012, samkvæmt launakönnun Hagstofu Íslands.

Þannig má heimfæra að hver vinnandi launamaður hafi verið með um 2.300 krónur á tímann. Laun Wayne Rooney eru ekki nema fimm hundruð sinnum hærri. Ótrúlegar tölur.

Vinnuskylda Wayne Rooney er hinsvegar mun minni, ein til tvær æfingar á dag og einn til tveir leikir í viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×