Viðskipti innlent

Leigjendur fá leiðrétt og líka þeir sem seldu fasteignina

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Öllum verðtryggðum lánum sem leiðréttingarleið ríkisstjórnarinnar nær til verður skipt í tvo greiðsluhluta. Leiðréttingarhluti lánsins verður keyptur af ríkissjóði. Um það bil 31.000 heimili á leigumarkaði fá einnig leiðréttingu þar sem heimilt verður að setja skattfrjálsa úttekt séreignasparnaðar á sérstakan íbúðarsparnaðarreikning. Þá fá þeir sem seldu fasteignina sína eftir tímabil forsendubrestsins eða skuldbreyttu lánum sínum einnig leiðrétt.

Leiðréttingarleið ríkisstjórnarinnar sem kynnt var um helgina mun koma til með að kosta 150 milljarða króna.

Það er staðreynd að helmingur leiðréttingarinnar, um 80 milljarðar króna, verður greiddur af ríkissjóði með skatttekjum sem dreifast yfir fjögur ár. Um verður að ræða hækkun á sérstökum skatti á banka og fjármálafyrirtæki í slitameðferð.

Verðtryggðum lánum skipt upp í tvo hluta

Hvernig verður þetta gert? Verðtryggðum fasteignalánum heimilanna verður skipt upp í tvo hluta. Frumlán og leiðréttingarlán. Leiðréttingarlánið er sá hluti lánsins sem verður felldur niður, að hámarki fjórar milljónir króna. Lántakendur munu ekkert greiða af leiðréttingarlánunum á árunum 2014-2017.

Greiðslubyrði lækkar strax á næsta ári þegar lánum verður skipt upp. Ekki eru greiddir vextir, verðbætur eða afborganir af leiðréttingarhluta lánsins.

Leitað verður heimildar í fjárlagafrumvarpi næsta árs til að greiða 20 ma.kr. til uppkaupa á einum fjórða leiðréttingarlána af Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðunum og bönkunum. Sams konar heimildar verður verður leitað í fjárlagafrumvörpum áranna 2015, 2016 og 2017.

Við skulum kíkja á dæmi um leiðréttingu: Lán var 22,5 milljónir króna fyrir niðurfærslu. Niðurfærslan nemur rúmlega 2,9 milljónum króna, sem verður leiðréttingarlán sem verður keypt af ríkissjóði, en staða láns eftir niðurfærslu verður frumlán, 19,5 milljónir króna.

Afborgun af höfuðstól lánsins verður 27.275 krónur í stað 31.117 króna áður. Vextirnir verða 67.627 krónur í stað 77 þúsund króna og afborgun verður 94.902 krónur í stað 108.958 króna.

Hvað með þá einstaklinga sem seldu fasteignir sínar eftir tímabil forsendubrestsins? „Aðalatriðið varðandi beinar niðurfærslur er að allir þeir sem voru með verðtryggð lán á þessu tímabili frá 2007-2010 fá leiðréttingu. Ef þeir seldu á tímabilinu þá verður leiðréttingin bara hlutfallsleg, eða tekur mið af því. En allir þeir sem fengu áfallnar verðbætur umfram viðmiðið þeir fá það endurgreitt,“ segir Sigurður Hannesson formaður sérfræðingahópsins um höfuðstólslækkun verðtryggðra fasteignalána.

Þannig að þeir sem hafa endurfjármagnað lán sín eða skuldbreytt þeir falla þar undir líka? „Það er rétt.“

Hluti leiðréttingarinnar mun einnig nýtast heimilum á leigumarkaði. Hvernig þá? „Það er gert ráð fyrir því að skattleysi séreignasparnaðar, sem er annar liður þessarar aðgerðar, muni einnig nýtast þeim sem eru á leigumarkaði og þá í gegnum sérstaka húsnæðissparnaðarreikninga. Við gerum ráð fyrir því að nánari útlistun á þessu komi fram í janúar,“ segir Sigurður.

Sett verður á laggirnar sérstök opinber úrskurðarnefnd um skuldaleiðréttingu sem á að taka á jaðar- og vafatilvikum sem kunna að rísa í tengslum við aðgerðirnar.

Hér má nálgast ítarlega glærukynningu forsætisráðuneytisins um skuldaleiðréttinguna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×