Fastir pennar

Umferðarlög, aksturshæfni og læknisvottorð

Teitur Guðmundsson skrifar
Á þessu þingi liggur nú fyrir að nýju frumvarp til umferðarlaga, sem er lagt fram af innanríkisráðherra, en það hefur verið í farvatninu um nokkurt skeið. Tímabært hefur verið að endurskoða fyrri lög sem eru frá árinu 1987 með síðari breytingum og hefur nýtt frumvarp fengið umsagnir fjölmargra aðila og fer nú í umfjöllun í nefndum þingsins í framhaldi.

Nokkurra breytinga er að vænta sem ekki hafa fengið mikla umfjöllun. Eitt eru sektarákvæði og umfang slíkra sem innanríkisráðherra sjálfur tæpir á í pistli í Morgunblaðinu síðastliðna helgi. Þar fjallar hann um tekjutengingu sekta við umferðarlagabrotum sem væntanlega verður fjörug umræða. En það sem ég ætla að ræða eru ákvæði um mat á aksturshæfni einstaklinga af hálfu lækna og þá sérstaklega nýtt ákvæði um sérstakan trúnaðarlækni Umferðarstofu.

Þetta ákvæði sætir nokkrum tíðindum og hefur Læknafélag Íslands meðal annars sent tvívegis umsögn sína um þetta frumvarp árin 2010 og 2011 til nefndarsviðs Alþingis, en ekki hefur mér vitanlega verið óskað eftir áliti félagsins nú, enda harla ólíklegt að það breytist mikið.

Í lögunum stendur orðrétt í 61. grein: „Komi fram upplýsingar við meðferð sjúklings á sjúkrastofnun eða hjá heimilislækni um verulega skerta hæfni viðkomandi til aksturs skal gera trúnaðarlækni Umferðarstofu viðvart án tafar. Stendur þagnarskylda læknis því ekki í vegi. Eins fljótt og unnt er skal trúnaðarlæknir óska eftir því að hlutaðeigandi gangist undir læknisrannsókn þar sem metnir eru þeir þættir sem áhrif hafa á aksturshæfni viðkomandi."

Hér er verið að gera læknum skylt að tilkynna skjólstæðinga sína til trúnaðarlæknis Umferðarstofu og setja lækna í ákveðið eftirlitshlutverk með almannahagsmunum. Hafa læknar áhyggjur af því að það grafi undan trúnaðarsambandi milli læknis og sjúklings. Slíkt hefur verið sannreynt í rannsóknum, meðal annars nú nýlega í grein í læknatímaritinu New England Journal of Medicine.

Í reglugerð nr. 830/2011 koma fram þær læknisfræðilegu lágmarkskröfur sem gerðar eru til þeirra sem ætla að stjórna vélknúnu ökutæki. Þær eru býsna ítarlegar og leyfi ég mér að efast um að eftir þeim sé farið í hvívetna hérlendis. Það er til dæmis óheimilt að endurnýja eða gefa út ökuleyfi fyrir þá sem eru háðir ávana- og fíknilyfjum eða nota þau að staðaldri, en mjög stór hópur notar slík lyf, þá einnig ávanabindandi lyf líkt og róandi eða svefnlyf og undir sama flokk falla þeir sem eru háðir áfengi. Sjúklingar með alvarlegar hjartsláttartruflanir og hjartakveisu eiga ekki að fá leyfi svo og sjúklingar með vissar tegundir flogaveiki og alvarlegri stig sykursýki með ítrekaðri blóðsykurlækkun. Þetta er fyrir utan þá sem sökum hrumleika og hreyfiskerðingar hafa ekkert undir stýri að sækja.

Samkvæmt frumvarpi til laga myndi þetta þýða að læknar á Vogi þyrftu að innkalla ökuleyfi sjúklinga sinna með því að vísa einstaklingunum til trúnaðarlæknis Umferðarstofu. Hjartalæknar yrðu að taka afstöðu til ökuleyfis með sama hætti og svona mætti lengi telja. Það getur varla verið markmið laganna að í raun svipta svo stóran hóp fólks ökuréttindum, eða hvað?

Margir telja að ökuréttindi jafngildi mannréttindum og er áhugaverð sú togstreita sem myndast þegar einstaklingur er metinn óhæfur af heilsufarsástæðum. Það er þó mikilvægt að hafa góðan ramma og skýrar leikreglur varðandi ökuleyfisveitingu og sviptingu sem læknar geta og eiga að fylgja. Umræðu er þörf um þetta mikilvæga málefni og undirritaður sem trúnaðarlæknir Umferðarstofu telur að ekki séu öll kurl komin til grafar enn þá.






×