Menning

Fjallað opinskátt um kynlíf

Spennandi þáttur Hrefna Björk Sverrisdóttir og Stórveldið framleiða þáttinn 2+6 sem verður á dagskrá Popptíví í vetur. Þátturinn fjallar um kynlíf.
fréttablaðið/anton brink
Spennandi þáttur Hrefna Björk Sverrisdóttir og Stórveldið framleiða þáttinn 2+6 sem verður á dagskrá Popptíví í vetur. Þátturinn fjallar um kynlíf. fréttablaðið/anton brink
„Þetta er fræðsluþáttur en efnið er séð með augum ungs fólks og við upplifum þetta svolítið í gegnum það," segir Hrefna Björk Sverrisdóttir einn framleiðenda sjónvarpsþáttanna 2+6 sem hefja göngu sína á Popptíví í vetur. Stórveldið framleiðir þættina í samstarfi við Hrefnu Björk.

Stjórnendur sjónvarpsþáttanna eru Sunna Sverrisdóttir og Veigar Ölnir Gunnarsson sem bæði eru að stíga sín fyrstu skref í sjónvarpi. Þættirnir verða átta að tölu og hefjast tökur á þeim í næstu viku. Að sögn Hrefnu Bjarkar verður ákveðið efni tekið fyrir í hverjum þætti og nefnir sem dæmi BDSM og sjálfsfróun. „Ungt fólk er mjög opinskátt þegar kemur að kynlífi og það er mjög áhugavert að sjá og heyra hvað það er að spá. Þó það sé opinskátt er ýmislegt sem byggt er á misskilningi og þess vegna er gott og þarft að svara þeim spurningum sem á þeim brenna."

Kynfræðingurinn Sigríður Dögg Arnardóttir verður Sunnu og Veigari innan handar við gerð þáttanna auk fjölda sérfræðinga, leiðbeinenda og kynlífsunnenda. Helstu viðmælendur þáttanna verður þó fólk á aldrinum 18 til 25 ára og segir Hrefna Björk að vel hafi reynst að fá fólk til að tjá sig opinskátt um kynlíf. „Fólk er mjög opið um þessi mál og því hefur gengið vel að fá viðmælendur. En eins og ég segi, þá er þátturinn enn í vinnslu og því er enn tækifæri fyrir fólk að hafa samband ef það lumar á einhverju sniðugu."

Hægt er að hafa samband við Hrefnu Björgu í gengum netfangið tveirplussex@storveldid.is.-sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×