Sport

Gunnar Nelson æfir stíft fyrir UFC

Bardagakappinn Gunnar Nelson undirbýr sig nú af fullum krafti fyrir fyrsta UFC-bardaga sinn sem fram fer í Nottingham á Englandi þann 29. september.

Andstæðingur Gunnars er Þjóðverjinn Pascal Krauss sem hefur viðurnefnið "Skriðdrekinn". Krauss var veltivigtarmeistari Cage Warriors áður en hann gekk til liðs við UFC og er jafnframt fyrrum unglingameistari Þjóðverja í hnefaleikum. Hann hafnaði meðal annars í öðru sæti á þýska meistaramótinu í hnefaleikum, en úrslitabardaginn þar var eina tap hans á 18 bardaga ferli í hnefaleikum.

Krauss hefur unnið tíu bardaga sem atvinnumaður í MMA. Eina tap hans var gegn hinum geysisterka John Hathaway en Krauss hafði þá verið frá keppni í tæpa 18 mánuði vegna alvarlegra axlarmeiðsla. Krauss tapaði á dómaraúrskurði og hefur því aldrei verið stöðvaður á ferli sínum sem atvinnumaður í MMA.

Gunnar Nelson hefur verið við stífar æfingar undanfarnar vikur. Hann var meðal annars við æfingar hjá MMA-goðsögninni Renzo Gracie í New York og æfði þar meðal annars með Georges St-Pierre, UFC-meistaranum í veltivigt.

Undanfarna daga hefur Gunnar hins vegar verið við æfingar hér heima ásamt keppnisliði bardagaklúbbsins Mjölnis. John Kavanagh, aðalþjálfari Gunnars og nýráðinn yfirþjálfari Mjölnis, hefur verið Gunnari innan handar en hann er margreyndur þjálfari í MMA. Bardagi Gunnars fer sem fyrr segir fram þann 29. september og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Á meðfylgjandi myndbandi má sjá Gunnar á æfingu með keppnisliði Mjölnis sem og valin brot úr bardögum hans og Árna "úr járni" Ísakssonar. Jón Viðar Arnþórsson, formaður Mjölnis, á heiðurinn af myndbandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×