Viðskipti innlent

Lárus Welding fyrir rétti í dag

JHH skrifar
Lárus Welding með Óttari Pálssyni verjanda sínum fyrir dómi.
Lárus Welding með Óttari Pálssyni verjanda sínum fyrir dómi. mynd/ þþ

Sakborningar í Vafningsmálinu svokallaða, þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, og Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, mæta fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag, þegar málflutningur fer þar fram um frávísunarkröfu sem sakborningarnir hafa lagt fram.

Þeir eru ákærðir fyrir umboðssvik í fléttu sem tengist félaginu Svartháfi og Vafning, en lánið rann í raun til Milestone, það félag var í eigu bræðranna Karls og Steingríms Wernerssona.

Báðir sátu Lárus og Guðmundur í áhættunefnd Glitnis og eru sagðir hafa misnotað stöðu sína og stefnt bankanum í stórfellda hættu með því að lána Milestone tíu milljarða króna í febrúar 2008, rúmu hálfu ári áður en bankinn féll.

Helmingur lánsins var veitt til Vafnings án trygginga. Félagið átti ekkert nema hálfa milljón í hlutafé. Þá fékk Svartháfur hinn helming tíu milljarðanna frá bankanum skömmu síðar til þess að greiða niður lán Milestones til bankans, í gegnum Vafning.

Eins og áður hefur komið fram í fréttum fréttastofu var ástæðan fyrir láninu fyrst og fremst að komast hjá veðkalli. Ef lánið hefði ekki verið veitt hefði bandaríski bankinn, Morgan Stanley, tekið bréf bankans yfir og í kjölfarið hefðu bréfin farið á markað, og líklega afhjúpað viðkvæma stöðu bankans í kjölfarið.

Þinghald átti að hefjast upp úr klukkan níu í morgun en það frestast til klukkan tíu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×