Viðskipti innlent

WOW air flýgur til Litháens

Baldur Baldursson, framkvæmdastjóri WOW air.
Baldur Baldursson, framkvæmdastjóri WOW air.
Flugfélagið WOW air ætlar að hefja áætlunarflug til Kaunas í Litháen í júní en borgin er næst stærsta borg Litháen með tæplega 400 þúsund íbúa. Alls mun WOW air því fljúga til 13 áfangastaða í Evrópu frá og með 1. júní. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Kaunas var áður höfuðborg landsins og þar er að finna margar gamlar og fallegar byggingar frá miðöldum. Baldur Baldursson, framkvæmdastjóri WOW air, segir í tilkynningu að mikil og góð tengsl séu á milli Íslands og Litháen. „Kaunas er fögur borg með mikla sögu og menningu sem gaman er að heimsækja. Borgin býður upp á margt áhugavert og skemmtilegt auk fjölda góðra veitingastaða. Þá er verðlag mjög hagstætt í Litháen. Þetta er spennandi tækifæri sem við viljum ekki láta fram hjá okkur fara," segir Baldur í tilkynningunni.

Í dag 16. febrúar er þjóðhátíðardagur Litháa og segir Baldur það sérstaklega ánægjulegt að kynna nýju flugáætlunina á þeim degi. WOW air verður með sérstakt tilboð á flugi til Kaunas til að byrja með og mun það kosta 23.900 kr. aðra leið. Allir skattar eru innifaldir í uppgefnum verðum WOW air.

„Framundan er spennandi sumar þar sem við munum fljúga til 13 borga í Evrópu. Stefna WOW air er að auka stöðugt samkeppni á flugmarkaði og gera almenningi sífellt auðveldara að ferðast til útlanda á sem bestu verði. Við höfum fengið mjög góðar viðtökur sem sýna að við erum á réttri leið. Það eru margir möguleikar framundan í ferðaþjónustu og við ætlum okkur að vera mjög hagkvæmur kostur fyrir ferðamenn. Við munum leggja áherslu á að koma ánægðum flugfarþegum á milli áfangastaða okkar, með gott verð, framúrskarandi þjónustu og öryggi að leiðarljósi," segir Baldur.

Flugfloti WOW air samanstendur af Airbus A320, 168 sæta flugvélum. Vélarnar eru leigðar frá félaginu Avion Express.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×