Viðskipti innlent

Norski bankinn DNB vill eignast Íslandsbanka

Magnús Halldórsson skrifar
Norski bankinn DNB er einn þeirra sem aflað hefur upplýsinga um Íslandsbanka með möguleg kaup á banknum í huga. Formaður slitstjórnar Glitnis, eiganda bankans, segir of snemmt að segja til um það hvort bankinn verði seldur.

Svissneski bankinn UBS hefur haft umsjón með söluferlinu á Íslandsbanka, fyrir slitastjórn Glitnis, frá því í upphafi árs 2010. Þá var því lýst yfir að vonir stæðu til þess að bankinn yrði seldur á næstu þremur til fimm árum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er norski bankinn DNB meðal þeirra sem sýnt hafa áhuga á Íslandsbanka, en Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að norskir og kanadískir bankar væru búnir að sýna Íslandsbanka áhuga. DNB hefur raunar átt í samstarfi við Íslandsbanka á sviði eignastýringar en samningur á milli bankann var undirritaður 1. desember 2010.

Verðmiðinn á bankanum liggur ekki fyrir en sé mið tekið af eiginfjárstöðu hans má gera ráð fyrir að hann sé ekki minna en 100 milljarða króna virði.

Nokkur óvissa er þó í spilunum um hvort bankinn verði seldur á næstunni eða ekki, samkvæmt upplýsingum frá slitastjórn Glitnis. Þar á bæ vildu forsvarsmenn ekkert segja um hverjir hefðu sýnt bankanum áhuga. Meðal þess sem getur ráðið miklu um hvernig mál þróast er hvort tekst að ná nauðasamningum við kröfuhafa, en unnið hefur verið að þeim um nokkurt skeið.

Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, er einn þeirra sem talað hefur fyrir mikilvægi þess að einn af endurreistu bönkunum þremur verði í eigu trausts erlends banka í framtíðinni. Hann segir að margt geti unnist með því, og stoðir fjármálakerfisins verði traustari fyrir vikið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×