Körfubolti

Grindavík þarf ekkert að borga fyrir Pettinella | Er huldumaðurinn pabbi hans?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli
Ryan Pettinella er aftur orðinn leikmaður Grindavíkur í boði ónefnds fjársterks aðila. Grindvíkingar þurfa ekkert að greiða fyrir kappann.

Magnús Andri Helgason, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, staðfesti þetta í samtali við Vísi í dag og segir að það hefði verið glapræði að hafna þessu tækifæri.

„Við vorum ekki að leita okkur að öðrum erlendum leikmanni," sagði Magnús Andri en fyrir hjá Grindavík eru tveir Bandaríkjamenn - Giordan Watson og J'Nathan Bullock.

„En svo kom fjársterkur aðili til okkar og bauðst til að borga undir þennan leikmann. Við gátum ekki sagt nei við því - það væri bara heimska."

„Það var þó fjallað um þetta í stjórn og Helgi Jónas Guðfinsson, þjálfari, ræddi þetta við leikmenn. Fyrst allir voru hlynntir og jákvæðir gagnvart þessu var ákveðið að ganga að þessu."

„Það var ekki stefnan að vera með þrjá erlenda leikmenn í liðinu. Það kemur svo bara í ljós hversu stórt hlutverk hann mun spila."

Magnús Andri vildi ekki nefna þennan fjársterka aðila. „Ég lofaði því að halda því fyrir mig og verð ég að standa við það. Þetta er huldumaður sem var tilbúinn að styðja okkur með þessum hætti."

Vísir hefur þó heyrt óstaðfestar sögusagnir að því að umræddur huldumaður sé faðir Ryan, Edward J Pettinella, sem hefur notið mikillar velgengni í viðskiptalífinu í Bandaríkjunum. Umfjöllun um hann á Forbes.com má sjá hér.

„Það þarf þó ekki milljarðamæringa til að borga fyrir körfuboltamenn á Íslandi - þó svo að þetta séu háar upphæðir fyrir íslensk íþróttafélög,“ bætir Magnús Andri við.


Tengdar fréttir

Pettinella aftur í Grindavík?

Bandaríkjamaðurinn Ryan Pettinella er mögulega aftur á leið til Grindavíkur en hann var valinn besti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×