Viðskipti innlent

Gæti hreinsað út Icesave-skuld

Verslanakeðjan er að stórum hluta í eigu þrotabús Landsbankans.
Verslanakeðjan er að stórum hluta í eigu þrotabús Landsbankans.
Skilanefnd gamla Landsbankans reynir nú að fá 1,8 til 2 milljarða punda, eða 333 til 370 milljarða króna, fyrir verslanakeðjuna Iceland Foods í Bretlandi.

Þetta er fullyrt á vef Financial Times. Skilanefnd þrotabúsins hefur þó aðeins staðfest að hún sé byrjuð að kanna hvaða möguleikar eru á að selja Iceland Foods. Eignin er þar með komin í söluferli og á næstu vikum verður rætt við ýmsar fjármálastofnanir um ráðgjöf við söluna. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er um að ræða margar af stærstu fjármálastofnunum heims.

Fáist um 2 milljarðar punda fyrir Iceland Foods, líkt og Financial Times heldur fram, væri Icesave-skuld bankans, samkvæmt þeim samningi við Breta og Hollendinga sem borinn verður undir þjóðina á morgun, í reynd úr sögunni og kostnaður ríkissjóðs þar af leiðandi enginn.

Eignarhlutur þrotabúsins í Iceland Foods er tæp 67 prósent þannig að úr sölunni gætu fengist 220 til 250 milljarðar króna. Hlutur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda af þessari fjárhæð væri 112 til 126 milljarðar króna, sem er 52 til 66 milljörðum meira en gert var ráð fyrir að Tryggingarsjóðurinn myndi fá af þeim 117 milljörðum sem skilanefndin hafði reiknað með að fengist samtals út úr allri hlutabréfaeign þrotabúsins, þar með töldum hlutabréfum í Iceland Foods.- gb





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×