Körfubolti

Páll Axel: Ég þarf ekki meiri tíma en þetta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Það var bara betra að það var búið að færa þriggja stiga línuna utar. Miðað við hvað ég var að flýta mér hefði ég annars örugglega þrumað boltanum í spjaldið,“ sagði Páll Axel hetja Grindvíkinga í leikslok.

Páll Axel ætlaði upphaflega aðeins að vera til taks á bekknum en spilaði um tuttugu mínútur og reyndist liðinu heldur betur mikilvægur.

Páll Axel skaut léttum skotum á Hreggvið Magnússon í KR-liðinu sem setti spurningamerki við sigurkörfuna.

„Ég var ekki með tímann á þessu. Ég hugsaði bara um að flýta mér að þessu, greip hann uppi og skaut. Ég þarf ekki meiri tíma en þetta. Ég veit ekki með Hreggvið. Hann þarf kannski meiri tíma til þess að skjóta en ekki ég,“ sagði Páll Axel.

Auk Páls Axels eiga Grindvíkingar inni annan Bandaríkjamann sem er væntanlegur til landsins í næstu viku.

„Já, við eigum alltaf inni einhverja leikmenn. Við erum samt ekki komnir eins langt og við vildum vera,“ sagði Páll Axel og hljóp í myndatöku með félögum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×