Innlent

Íslensk hjúkrunarkona á vaktinni í Osló

Miðborg Oslóar í gær.
Miðborg Oslóar í gær. Mynd/AFP
„Ástandið var mjög „kaótískt" til að byrja með, fyrst eftir að fréttist af sprengingunni í Osló voru allir mjög sjokkeraðir og síðan enn frekar þegar fréttist af skotárásinni," segir Anna María Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur, sem vinnur á spítala í Sandvika sem er skammt frá Osló.

Hún kom ekki beint að atburðunum í höfuðborginni í gær, þegar þrjátíu og tveggja ára karlmaður, sprengdi bifreið í miðborginni með þeim afleiðingum að minnsta kosti sjö létu lífið og fjölmargir særðst. Viðvörunarstigið á spítalnum sem hún vinnur á var hækkað. „Starfsfólk var kallað í vinnu og allir voru í startholunum við að taka við slösuðum ef þess þyrfti, það er að segja ef spítalarnir í Osló gætu ekki lengur tekið við sjúklingum."

Anna María Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Í gær segir hún að mikil spenna hafi verið á meðal sjúklinga og starfsfólks og lögð hafi verið áhersla á að halda sem mestri ró meðal sjúklinga og reyna halda rútínu. „Einnig var farið í það að reyna að útskrifa þá sjúklinga sem mögulega var hægt að útskrifa til þess að hafa pláss ef einhverjir sjúklingar kæmu til okkar. Síðan eftir að búið var að gefa út að sjúkrahúsið væri nú á rauðu viðbúnaðarstigi fór allt að fyllast af starfsfólki sem hafði verið kallað til vinnu, þetta var mjög spes að upplifa, hjúkrunarfók var þarna í gulum vestum og maður fann mjög sterkt fyrir alvarleika málsins," segir Anna María.

Þá hafi öryggiseftirlit aukist til muna. „Það fékk enginn að koma inn á deildina nema sína skilríki og allt öryggi var hert," segir hún.

Í fyrstu var talið að um hryðjuverk væri að ræða, en nú er talið víst að þrjátíu og tveggja ára karlmaður, Anders Behring Breivik, hafi sprengt bifreiðina í loft upp og keyrt svo að eyjunni Útey. Þar hafi hann banað að minnsta kosti 84 ungmennum sem voru saman komin á eyjunni á vegum ungra jafnaðarmanna. Hann er í haldi lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×