Viðskipti erlent

Krafa um rannsókn á tengslum Tchenguiz við Íhaldsflokkinn

Stjórnarandstaðan á breska þinginu hefur gert kröfu um að tengsl Tchenguiz fjölskyldunnar við Íhaldsflokkinn verði rannsökuð.

Þessi krafa kemur í framhaldi af handtöku þeirra Vincent og Robert Tchenguiz í gærdag og yfirheyrslna yfir þeim á vegum efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar.

Blaðið Guardian greinir frá því í morgun að John Mann þingmaður Verkamannaflokksins hafi sent bréf til David Cameron forsætisráðherra Bretlands og formanns Íhaldsflokksins þar sem hann krefst þess að fjárframlög Tchenguiz fjölskyldunnar til Íhaldsflokksins verði rannsökuð.

Meðal annars er nefnt til sögunnar að Elizabeth Tchenguiz systir þeirra bræðra hafi veitt Íhaldsflokknum 100.000 punda fjárframlag í síðustu kosningabaráttu flokksins.

Þá er einnig sagt frá því að Vincent Tchenguiz hafi veitt flokknum 13.500 punda framlag eftir kosningarnabaráttuna.

David Cameron segir að það fari eftir niðurstöðunni úr rannsókn bresku lögreglunnar hvort tengsl Tchenguiz fjölskyldunnar og Íhaldsflokksins verði rannsökuð sérstaklega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×