Lífið

Ameríka opnast fyrir Vesturport

Hamskiptin í uppfærslu Vesturports fengu lofsamlega dóma í The New York Times. Dómurinn skiptir öllu máli fyrir frekari útrás í Ameríku. Mynd/Vesturport.com
Hamskiptin í uppfærslu Vesturports fengu lofsamlega dóma í The New York Times. Dómurinn skiptir öllu máli fyrir frekari útrás í Ameríku. Mynd/Vesturport.com

„Þetta er náttúrlega fáránlegt og eiginlega hálfsjúkt, að nánast allt leikhúslíf í New York skuli snúast um einn dóm," segir Gísli Örn Garðarsson. Uppfærsla Vesturports á Hamskiptunum eftir Franz Kafka fékk lofsamlega dóma í bandaríska stórblaðinu The New York Times.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í ágúst skipti sá dómur öllu máli. Ef hann væri góður opnuðust allar dyr í leikhúsheiminum, slæm gagnrýni þýddi að allt væri lokað og læst. „Brendan Fraser var að leika í Elling hérna, þrjú hundruð milljóna króna sýningu. The New York Times slátraði henni og sýningum var hætt eftir viku."

Gísli vill hins vegar ekki ganga það langt að segja Vesturport hársbreidd frá stóra sviðinu á Broadway. En vissulega hafi margar dyr opnast eftir þennan góða dóm. Hann viðurkennir að dagarnir eftir frumsýningu hafi verið nokkuð taugatrekkjandi.

„Við fengum nefnilega dóm í Time Out á netinu sem var upp á þrjár stjörnur. Sá gagnrýnandi var ekki alveg að fíla leikgerðina og ég hugsaði með sjálfum mér að kannski væri þetta ekkert fyrir Bandaríkjamenn. Sá dómur skipti bara engu máli þegar dómur The New York Times kom. Þá byrjuðu símarnir að hringja."

Gísli segir framhaldið hins vegar óráðið. Faust, samstarfsverkefni Borgarleikhússins og Vesturports, verður sett upp í Ludwigshaven í næstu viku þannig að ferðalögunum er hvergi hætt.

„Við fljúgum þangað beint frá New York enda gerast hlutirnir ekki á einni nóttu í Ameríku."- fgg










Fleiri fréttir

Sjá meira


×