Viðskipti innlent

Rannsókn sérstaks saksóknara á Exeter Holdings á lokastigum

Byr lánaði Exeter Holdings rúman milljarð til þess að kaupa stofnfjárbréf af stjórnendum og eigendum bankans.
Byr lánaði Exeter Holdings rúman milljarð til þess að kaupa stofnfjárbréf af stjórnendum og eigendum bankans.

Rannsókn sérstaks saksóknar á viðskiptum Exeter Holdings ehf. með stofnfjárbréf í Byr er langt komin en það er þó óljóst hvenær og hvort ákærur verði gefnar út.

Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.

Byr lánaði Exeter Holdings 1,4 milljarðs króna lán í tveimur hlutum í október og desember 2008. Féð varði félagið til þess að kaupa 1,8 prósenta stofnfjárhlut í Byr á yfirverði. Seljendur voru eigendur og stjórnendur Byrs.

Félagi var í meirihlutaeigu Ágústs Sindra Karlssonar lögmanns.

Til rannsóknar er grunur um brot á auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga í tengslum við umrædda sölu á stofnbréfum og lánagerningum þeim tengd. Um er að ræða verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda manns.

Sérstakur Saksóknari framkvæmdi meðal annars tvær húsleitir vegna málsins á síðasta ári.

Samkvæmt upplýsingum frá Ólafi þá er rannsóknin á lokastigum. Fréttastofa RÚV hafði áður greint frá því að ákærur gætu litið dagsins ljós í lok mánaðarins. Ólafur sagðist ekki geta sagt neitt til um það.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×