Viðskipti innlent

Fons tapaði 42 milljörðum króna

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Pálmi Haraldsson. Fons var í eigu Pálma og Jóhannesar Kristinssonar, viðskiptafélaga hans.
Pálmi Haraldsson. Fons var í eigu Pálma og Jóhannesar Kristinssonar, viðskiptafélaga hans.

Fons, eignarhaldsfélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, tapaði 42 milljörðum króna á árinu 2008. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Fons er nú gjaldþrota, en kröfur í þrotabú félagsins nema rúmlega fjörutíu milljörðum króna. Fons fór úr því að eiga Íslandsmet í hagnaði yfir í gjaldþrot á innan við ári. Í ágúst 2008 hagnaðist Fons um 75 milljarða króna á því að selja hlut sinn í verslunarkeðjunni Iceland í Bretlandi. „Þetta er sennilega Íslandsmet í hagnaði," sagði Pálmi Haraldsson í samtali við Fréttablaðið hinn 16. ágúst 2008 þegar greint var frá sölunni á hlutnum í Iceland og raunar fleiri fyrirtækjum í Bretlandi sem Fons átti hlut í.

Stærstur hluti söluhagnaðarins fór hins vegar í að greiða niður lán við Landsbankann, en eins og fréttastofa hefur greint frá var það félagið Stytta ehf., sem er í eigu Stoða og Blackstar Ltd. á eynni Mön, sem keypti 29 prósenta hlut Pálma á 430 milljónir punda. Blackstar Ltd. er í eigu þriggja lykilstjórnenda Iceland-keðjunnar. Langstærstur hluti kaupverðs Styttu á hlutnum í Iceland var yfirtaka á lánum sem félag Pálma fékk hjá Landsbankanum.

Eins og fréttastofa hefur greint frá ætlar Óskar Sigurðsson, lögmaður og skiptastjóri þrotabús Fons, að stefna Pálma Haraldssyni og Jóhannesi Kristinssyni, eigendum Fons, vegna arðgreiðslu upp á 4,2 milljarða króna frá Fons til Matthew Holding árið 2007, félags sem tvímenningarnir áttu og skráð er í Lúxemborg. Arðgreiðslan var vegna góðs hagnaðar á árinu 2006 en hún var greidd út í ágúst 2007. Dregið var á lánalínu til að greiða arðinn út og tók Fons tímabundið 4,2 milljarða króna lán hjá Landsbankanum fyrir arðgreiðslunni, sem síðan var greitt að fullu.

Óskar telur að ekki hafi verið forsendur fyrir arðgreiðslunni, en Pálmi er ekki sama sinnis og segist hafa látið lögfræðinga yfirfara arðgreiðsluna og að allar forsendur hafi verið fyrir henni. Auk arðgreiðslunnar vill Óskar rifta tólf samningum sem Fons gerði fyrir bankahrunið, svo sem lána- og gjaldmiðlaskiptasamningum.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
4,36
82
1.091.920
ORIGO
2,25
2
3.481
REITIR
1,24
3
101.924
HEIMA
0,91
1
11
ARION
0,87
3
130.285

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
LEQ
-0,84
1
200
VIS
-0,71
2
2.480
MARL
-0,52
10
181.238
FESTI
-0,2
3
42.932
SKEL
0
1
500
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.