Innlent

Færeysk hómófóbía varpaði ekki skugga á heimsókn Jóhönnu

Valur Grettisson skrifar

„Ég varð vör við að margir Færeyingar sem ég hitti í þessari ferð voru miður sín vegna ummæla þessa manns," sagði Jóhanna Sigurðardóttir á blaðamannafundi í Stjórnarráðshúsinu í morgun en þar var hún spurð út í opinbera heimsókn sína til Færeyja.

Mesta athygli vakti að færeyski þingmaðurinn Jenis av Rana neitaði að sitja til borðs með Jóhönnu og eiginkonu hennar vegna kynhneigðar þeirra.

Jóhanna sagði framkoma þingmannsins ekki hafa varpað skugga á þessa fyrstu opinberu heimsókn hennar sem forsætisráðherra Íslands.

Hún segir að margir landar Jenis, sem hún hitti, hafi sagt sér að þeir skömmuðust sín vegna framkomu hans.

Jenis, sem er strangtrúaður, sagði meðal annars komu Jóhönnu ásamt eiginkonu hennar til Færeyja, vera ögrun við kennisetningar biblíunnar.

Jóhanna sagði miður að mannréttindamál í Færeyjum væru fótum troðið með þessum hætti. Hún vonaðist til þess að koma sín til landsins opnaði á jákvæða umræðu um málefnið þar í landi sem gæti breytt viðhorfunum til hins betra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×