Skoðun

Jakob Frímann Magnússon: Vörðum leiðina að manneskjulegra samfélagi

Bergsteinn Sigurðsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, fjallaði í gær um grein mína í sama blaði sl. laugardag. Hann fór þó á svig við kjarna gagnrýni minnar. Sú gagnrýni lýtur ekki að handtöku tiltekinna einstaklinga heldur að munstri sem einkennist af markvissri og vaxandi fjölmiðlasækni opinberra embættismanna á frumstigum ákæru- og dómsmála. Slíka þróun tel ég varhugaverða og lítt til sóma í okkar fámenna íslenska samfélagi. Sérstaklega er mikilvægt að embættismenn haldi haus við þær óvenjulegu aðstæður sem nú ríkja. Þó að dæmi sl. helgar sé nýjasta tilvikið þá nefni ég einnig önnur frá fyrri tíð. Af nógu er að taka. Bent skal á að nota hefði mátt bílakjallara saksóknarahússins sl.föstudag, ef ekki hefði staðið vilji til mikils uppsláttar eins og raun varð á.

Ég tel að allir rannsakendur séu á villigötum sem á undanförnum mánuðum og misserum hafa efnt til sérstakra blaðamannafunda til að skýra frá fyrirætlunum sínum varðandi tilgreinda einstaklinga sem ekki hefur verið hafin opinber rannsókn á, hvað þá ákæru- né dómstólaferli. Slíkt mætti e.t.v. skýra sem viðbrögð við óþreyju í samfélagi þar sem enginn embættismaður eða stjórnmálamaður, hefur enn stigið fram og axlað ábyrgð með viðeigandi hætti á sínum þætti í orsökum hrunsins eins og vænta hefði mátt og tíðkast mundi í nágrannalöndunum. Einnig kann að koma til mannleg viðleitni rannsakendanna sjálfra til að vekja athygli yfirmanna og annarra á dugnaði sínum eða myndugleik enda munu slíkir fundir ávallt hljóta rými í fjölmiðlum þjóðar sem þyrstir eftir því að einhver axli ábyrgð á þeim þrúgandi vanda sem íslenskur almenningur þarf að glíma við.

Framangreind vinnubrögð eru hins vegar að mínu mati algerlega ótímabær og óviðeigandi, sama hver í hlut á, þar til dómur er upp kveðinn og fyrir liggur ótvíræð sekt þess er í hlut á. Í þeim fyrstu skrefum sem nú er verið að stíga til að fullnægja réttlætinu er mikilvægt að varast allt sem minnir á vinnubrögð í Geirfinnsmáli, Hafskipsmáli eða öðrum blygðunarefnum réttarsögu okkar. Séu menn vissir um að þeir séu á réttri braut, ber þeim að hafna óþarfa sjónarspili, halda sínu striki og ljúka tilætluðum verkum. Hver sem í hlut á. Þannig vinnubrögð munu auka traust og virðingu á rannsóknarmönnum. Þau eru skv. gildandi lögum og varða leiðina að ábyrgara en fyrst og fremst manneskjulegra samfélagi.

Hið síðastnefnda er e.t.v. það mikilvægasta af öllu, í því erfiða og dapurlega ferli sem nú er hafið.

*Tekið skal fram að greinin speglar einungis persónulega skoðun höfundar.

 




Skoðun

Sjá meira


×