Viðskipti innlent

Afskrifar sex milljarða vegna lána til stjórnenda Atorku

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Skilanefnd Landsbankans þarf að afskrifa rúmlega sex milljarða króna vegna lánveitinga til félaga í eigu fyrrverandi eigenda og stjórnenda fjárfestingafélagsins Atorku, en félögin hafa nú verið tekin til gjaldþrotaskipta.

Atorka var meðal stærstu hluthafa Promens og Geysi Green Energy, sem var síðan hluthafi í HS Orku. Þá var Atorka kjölfestufjárfestir í alþjóðlega gámafyrirtækinu InterBulk og breska fyrirtækinu Romag sem er leiðandi framleiðandi á sviði sérhæfðra glersamsetninga.

Eignarhaldsfélagið Skessa var stærsti hluthafinn í Atorku með ellefu prósenta hlut og var í sameiginlegri eigu Magnúsar Jónssonar fyrrverandi forstjóra Atorku og Þorsteins Vilhelmssonar, fyrrverandi stjórnarformanns félagsins. Félagið er nú gjaldþrota og að sögn Jóns G. Briem, skiptastjóra þrotabúsins, eru kröfur í félagið 2,5 milljarðar króna og eignir þess eru samtals 115 milljónir króna.

Félagið Harðbakur var í eigu Þorsteins Vilhelmssonar og átti 9,4 prósenta hlut í Atorku. Það er einnig gjaldþrota og eru kröfurnar 2,2 milljarðar króna. Félagið átti tæplega 600 milljónir króna bankainnstæðu.

Félagið Ránarborg var einnig í eigu Þorsteins Vilhelmssonar. Félagið átti 8,7 prósenta hlut í Atorku. Það er einnig gjaldþrota og nema kröfur í félagið alls 1,9 milljörðum króna og samtals eignir eru 130 milljónir króna.

Félagið Mávur, sem var í eigu Harðbaks og þar með Þorsteins Vilhelmssonar, átti 3,2 prósenta hlut í Atorku. Félagið er einnig gjaldþrota og kröfur í þrotabúið eru samtals 700 milljónir króna. Félagið átti 223 milljónir króna í formi bankainnstæðu.

Samtals eru kröfurnar í þessi fjögur félög 7,3 milljarðar króna. Eignir eru bankainnstæður upp á samtals tæplega 1,1 milljarð króna. Skilanefnd Landsbankans er eini kröfuhafi þessara félaga og það er því allt útlit fyrir að skilanefndin þurfi að afskrifa rúmlega sex milljarða króna vegna lánveitinga til félaganna.






Tengdar fréttir

Kröfur í þrotabú Atorku hátt í 56 milljarðar

Kröfur í bú Atorku nema hátt í 56 milljörðum króna. Eftir tvo daga munu kröfuhafar greiða atkvæði um nauðasamninga sem fela í sér að 35 milljarðar verða afskrifaðir en afgangnum umbreytt í hlutafé og lán.

Bankar og lífeyrissjóðir eignast Atorku

Nýi Landsbankinn, Íslandsbanki og lífeyrissjóðir verða stærstu eigendur fjárfestingafélagsins Atorku nái nauðasamningar fram að ganga. Kröfur í félagið nema um 49 milljörðum króna.

Atorka ræður forstjóra tímabundið

Stjórn Atorku hefur ráðið Benedikt Olgeirsson tímabundið í starf forstjóra Atorku til 31. desember 2009 meðan unnið er að því að ljúka við nauðasamninga félagsins, að því er segir í tilkynningu til kauphallarinnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×