Innlent

Áfram virkni í jarðskorpunni

Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Á upplýsingafundum sérfræðinga í Skógarhlíð og á Hvolsvelli í morgun kom fram að lítil aska féll úr gosinu í Eyjafjallajökli í gær og gosvirkni var róleg á yfirborðinu. Þóranna Pálsdóttir, veðurfræðingur, og Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingur, voru í Skógarhlíð og greindu frá stöðunni og útskýrðu veður- og öskudreifingarspá en á annan tug erlendra blaðamanna auk fulltrúa erlendra sendiráða sátu fundinn. Fram kom að yfirborð eldstöðvarinnar er rólegt og þar sem vatn virðist lítið hefur sprengivirkni farið minnkandi. Órói kemur áfram fram á mælum Veðurstofunnar sem þýðir að virkni er áfram í jarðskorpunni.

Bryndís Brandsdóttir, jarðeðlisfræðingur, var í upplýsingamiðstöðinni á Hvoli ásamt Kristínu Þórðardóttur, staðgengli sýslumanns. Bryndís sagði áfram vera óróa í eldstöðinni. Hraun hleðst upp í gígnum og eykur þrýsting á gosrásina. Drunur sem heyrst hafi á svæðinu tengist gassprengingum í gígnum.

Veðurspá



Gert er ráð fyrir hægari austlægri átt og skýjuðu. Á morgun, föstudag er spáð suðaustlægri átt og smám saman vaxandi vindur og öskumistur til norðvesturs frá eldstöðinni, sem getur jafnvel náð í örlitlum mæli til Reykjavíkur. Snjókoma eða slydda með köflum. Í efri loftlögum er í fyrstu spáð norðlægum og síðar austlægum áttum og að gosmökkur rísi ekki í meira en 6 kílómetra hæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×