Fastir pennar

Klípa forsetaembættisins

Þorsteinn Pálsson skrifar

Forseti Íslands er í nokkurri klípu þegar kemur að staðfestingu ríkisábyrgðarlaganna vegna Icesave-skulda Landsbankamanna. Ósennilegt er að fyrir honum vefjist að finna rökstuðning fyrir undirskriftinni með einum eða öðrum hætti. Vandi forsetans er hins vegar í því fólginn að hann kemst ekki frá málinu án þess að lenda í mótsögn við fyrri orð og athafnir við staðfestingu laga.

Slík staða lækkar ris embættisins. Hún kemur til viðbótar þeim atburðum sem forseti hefur sjálfur lýst á þann veg að embættið hafi í tíð hans verið misnotað af forystumönnum í fjármálalífinu. Þó að slík misnotkun sé eftir stjórnarskránni á ábyrgð ráðherra en ekki forseta sjálfs eru áhrifin þau sömu á stöðu embættisins.

Það eru einkum tvö fordæmi sem leiða forsetann í nýjan vanda. Fyrra fordæmið lýtur að fjölmiðlalögunum. Þá synjaði forseti um staðfestingu með þeim rökum að gjá hefði skapast milli þings og þjóðar. Umræður í þinginu og undirskriftir almennings til forseta gefa sterklega til kynna að þær aðstæður séu jafnvel ríkari nú en þá.

Síðara fordæmið er staðfesting forseta á Icesavelögunum frá því í sumar. Þá féllst forseti á lögin með sérstakri skírskotun til þeirra fyrirvara og takmarkana sem Alþingi hafði bætt við frumvarp ríkisstjórnarinnar. Fyrirvararnir voru þannig forsenda staðfestingar. Nú er óumdeilt að fyrirvararnir hafa verið rýrðir. Stjórn og stjórnarandstöðu greinir hins vegar á um að hve miklu leyti.

Forsetinn hefur komið embættinu í þá stöðu að þurfa að taka pólitíska afstöðu með mati ríkisstjórnarinnar á fyrirvörunum þegar hann staðfestir nýju lögin. Einu gildir hvaða búningur þeim rökum verður búinn. Niðurstaðan verður óhjákvæmilega stuðningur við mat ríkisstjórnarinnar. Fari svo ólíklega að forseti synji um staðfestingu verður það að gerast eftir mati stjórnarandstöðunnar á fyrirvörunum.

Niðurstaðan er sú að forsetaembættið er í trúverðugleikaklípu hvorn kostinn sem forseti velur. Sú klípa getur haft áhrif á stöðu embættisins um langa framtíð.



Réttur þjóðarinnar

Á sínum tíma notaði forsetinn skilgreininguna um gjá milli þings og þjóðar til þess að synja um lagastaðfestingu. Í sjálfu sér var þetta ágæt skilgreining á ástandi sem réttlætt getur að þjóðin fái úrslitavald um gildistöku laga.

Spurningin er þá sú hvort hagsmunir þjóðarinnar séu best tryggðir með því að hafa það mat alfarið á hendi þjóðhöfðingjans eins og stjórnarskráin gerir nú ráð fyrir. Ástæða er til að skoða það álitaefni í víðu samhengi.

Í fyrsta lagi getur sú staða verið uppi að forseti vilji heldur varðveita stöðu sína sem einingartákn fremur en að tefla henni í tvísýnu. Það gerði Vigdís Finnbogadóttir í miklu deilumáli um EES-samninginn. Vera má að það hafi með öðru ráðið talsverðu um að hún skilaði jafn risháu embætti og hún hafði tekið við.

Í öðru lagi getur staðið svo á að forseti sé efnislega sömu skoðunar og meirihluti þingsins og telji það ekki í þjóðarþágu að tefla slíku máli í tvísýnu. Sú staða sýnist hafa verið upp á teningnum á liðnu sumri þegar forseti undirritaði ríkisábyrgðarlögin með sérstakri tilvísun í tiltekna efnisþætti þeirra þó að þá þegar hafi verið sýnileg gjá milli þings og þjóðar í málinu.

Í þriðja lagi hefur það gerst að forseti hafi hafnað óskum frá almenningi um að synja um staðfestingu á lögum með þeim rökum að dómstólar ættu að skera úr þeim ágreiningi sem fyrir hendi var.

Af þessum dæmum má ráða að gildandi stjórnarskrárákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu, ef forseti synjar lögum um staðfestingu, er ekki einhlít leið til að fá kjósendum úrslitaáhrif þegar gjá er milli þings og þjóðar. Þessar athugasemdir eru jafngildar hver sem á hlut að máli á forsetastóli og eiga því ekki við núverandi forseta fremur en aðra.

Betri lausn

Þegar stjórnskipunin gerir ráð fyrir fullri aðgreiningu framkvæmdavalds og löggjafarvalds eins og í Bandaríkjunum er lagasynjunarréttur forseta eðlilegt tæki til að tryggja jafnvægi milli þessara tveggja valdþátta. Þessu víkur á annan veg við þegar stjórnskipunin byggir á þingræðisreglu.

Vilji menn koma málum í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar gjá er staðfest milli þings og þjóðar er skynsamlegt að pólitísk ábyrgð liggi að baki mati á því hvenær þær aðstæður eru fyrir hendi. Í dönsku stjórnarskránni er tilteknum minnihluta þingmanna fengið það vald og sú ábyrgð að meta þessar aðstæður með ákveðnum tilgreindum undantekningum.

Slík lausn var rædd á árunum 2005 til 2007 í stjórnarskrárnefnd er laut forystu Jóns Kristjánssonar, þáverandi heilbrigðisráðherra. Erfitt er að meta hvað hindraði framgang þess máls en sennilega réði þó mestu að Samfylkingin vildi ekki ræða úrlausnir sem lutu að forsetanum, jafnvel þó að þær hefðu þann tilgang að rétta hlut Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu.

Margt bendir hins vegar til að forsetaembættið væri í betri stöðu í dag hefði slík breyting náð fram að ganga á þeim tíma. Sú trúverðugleikaklípa sem forsetaembættið stendur nú andspænis er áminning um hversu brýnt það er að ljúka yfirvegaðri heildarendurskoðun á stjórnarskránni og losa þá umræðu undan oki lýðskrumsins.








×