Innlent

Gefur kost á sér í kraganum

Íris Björg Kristjánsdóttir
Íris Björg Kristjánsdóttir

Íris Björg Kristjánsdóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3.-5. sæti á prófkjörslista Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosningum.

Hún segir í tilkynningu að fyrirhyggja, heildarsýn og mannúð eigi að vera lykilorð í stefnumálum komandi ríkisstjórnar.

„Það er skylda okkar að sjá til þess að allir einstaklingar eigi jafna möguleika á góðum lífsskilyrðum. Meðan við göngum í gegnum efnahagslægðina þurfum við úrræði og lausnir til að draga úr þeim skaða sem hún veldur á öllum sviðum samfélagsins.

Með útsjónasemi að leiðarljósi þurfum við að stuðla að fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu og menntunarmöguleikum um land allt og endurbyggja öflugt velferðarkerfi. Það er mikilvægt að ekki verði teknar fleiri ákvarðanir sem byggðar eru á skammsýni. Það er í höndum almennings að kjósa burt gamlar aðferðir byggðar á hagsmunum örfárra.

Atvinnumál, nýsköpun, upplýsingatækni, umhverfis- og náttúruverndarmál, jafnréttismál, mannréttindamál, velferðarmál og ábyrg efnahagsstjórnun eru meðal þeirra verkefna sem ég vil beita mér að.

Hefja þarf upp hag aldraðra til vegs og virðingar, hlúa betur að börnum og ungmennum. Við þurfum að tryggja að Ísland hafi rödd í alþjóðasamfélaginu og að við einangrumst ekki í samskiptum við aðrar þjóðir. Með samvinnu náum við betri árangri innanlands og á alþjóðavísu. Við verðum að tryggja samskipti og samgang þjóða á milli fyrir komandi kynslóðir."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×