Innlent

Kannanir samhljóma um meginlínurnar

Lítill munur er á síðustu skoðanakönnunum Fréttablaðsins og Capacent Gallup sem birtar voru í gær. Helsti munurinn er sá að Fréttablaðið spáir Samfylkingu 21 þingmanni, en Capacent Gallup gerir ráð fyrir 20 þingmönnum. Þá gerir Capacent Gallup ráð fyrir 17 þingmönnum Vinstri grænna, en Fréttablaðið spáir 16. Báðum ber saman um að Sjálfstæðisflokkurinn fái 15 þingmenn, Framsóknarflokkurinn sjö og Borgarahreyfingin fjóra.

Ef kannanir þessa tveggja aðila fyrir síðustu kosningar eru skoðaðar kemur í ljós að Capacent Gallup var nær úrslitum kosninganna 2007 en könnun Fréttablaðsins. Sérstaklega ofmat Fréttablaðið, meira en Gallup, stöðu Sjálfstæðisflokksins. Þá vanmat Fréttablaðið meira en Gallup stöðu Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins. Hins vegar hafa verið gerðar breytingar á aðferðafræði Fréttablaðsins, síðan þá sem miða að því að draga úr ofmati á fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Bæði Fréttablaðið og Capacent vanmátu stöðu Framsóknarflokksins, Frjálslynda flokksins og Samfylkingar. Könnun Capacent Gallup sýndi að úrslit allra þriggja flokkanna yrðu um prósentustigi undir því sem varð í kosningunum. Fréttablaðið var hins vegar um tveimur prósentustigum frá úrslitum kosninga, utan Framsóknarflokks sem var vanmetið um 2,6 prósentustig..

Báðir aðilar ofmátu hins vegar Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græna. Fréttablaðið ofmat stöðu Sjálfstæðisflokksins um tæp sex prósentustig en eins og fyrr segir hafa verið gerðar breytingar til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Fréttablaðið ofmat Vinstri græn um tæp tvö prósentustig. Capacent Gallup ofmat Sjálfstæðisflokkinn um 2,3 prósentustig og Vinstri græn um tæp tvö prósentustig.

Miðað við hve margir fyrrum kjósendur Sjálfstæðisflokksins segjast nú ætla að skila auðu eða ekki mæta á kjörstað getur þó verið að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki ofmetinn að þessu sinni.

svanborg@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×