Fastir pennar

Gömlu íhaldsúrræðin

Þorsteinn Pálsson skrifar

Í pólitískum vopnaburði er meir skírskotað til hugmyndafræði en áður. Áhugavert er að að skoða hvort bilið milli stjórnmálaflokka í hugmyndafræðilegum skilningi hefur í raun breikkað.

Algengasta yfirlýsing ráðherranna, að undanskildum þeim sem fara með viðskipta- og dómsmál, er sú að frjálshyggjan sé úr sögunni. Stundum fylgir með að kapítalisminn hafi sungið sitt síðasta. Þetta eru skýr skilaboð. Hvað á að koma í staðinn? Svarið við því er líka afdráttarlaust: Norræn velferðarhugsjón.

Málið verður ekki hugmyndafræðilega flókið fyrr en sú staðreynd er dregin fram að allar grundvallarleikreglur viðskiptalífsins hér voru þær sömu og í hinum norrænu velferðarhagkerfunum. Að stærstum hluta byggir sú löggjöf á alþjóðlegum samningum. Enginn hefur nefnt að þeim eigi að rifta.

Forysturíki hins alþjóðlega markaðsbúskapar vinna nú að því að herða reglur um fjármálastarfsemi. Við fetum í þau fótspor.

Grundvöllur endureisnarinnar felst í samstarfssamningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Lykilatriðin í honum eru aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum, ströng peningamálastefna og endurreisn bankakerfisins. Markvisst hefur verið unnið að því að erlendir kröfuhafar eignist bankana. Áður fyrr fengu ráðstafanir af þessu tagi heitið: Gömlu íhaldsúrræðin.

Þessar staðreyndir benda ekki til að sá hugmyndafræðilegi ágreiningur, sem veifað er í umræðunni, risti eins djúpt og af er látið. Segja má að saklaust sé að veifa hugmyndafræðilegum slagorðum meðan gömlu íhaldsúrræðin eru framkvæmd.

Hugmyndafræðin í aðdraganda hrunsins

Ýmsir rekja hrunið til einkavæðingar gömlu ríkisbankanna. Hún hófst með sameiningu Útvegsbankans við einkabankana í byrjun tíunda áratugarins. Í þeirri ríkisstjórn sem þannig hóf einkavæðingu ríkisbankanna sátu bæði núverandi forsætisráðherra og núverandi fjármálaráðherra. Fyrr hafði bankamálaráðherra Alþýðuflokksins reynt að selja SÍS Útvegsbankann, skömmu áður en rekstur þess hrundi.

Sumir tengja hrunið við frjálsa sölu veiðiheimilda. Ríkisstjórn sem núverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra sátu í átti frumkvæði að þeirri löggjöf. Um áhrif hennar má deila en höfundarrétturinn verður ekki tekinn af eigendunum.

Skattalækkanir fyrir kosningarnar 2003 og 2007 hafa verið teknar sem dæmi um aðgæsluleysi í ríkisfjármálum. Þegar að er gáð kemur í ljós að allir flokkar boðuðu skattalækkanir 2003 þrátt fyrir viðskiptahalla. VG var hógværast. Samfylkingin og þáverandi ríkisstjórnarflokkar rifust hins vegar um hver biði best. Í aðdraganda kosninganna 2007 var lækkun skatta á matvæli samþykkt með atkvæðum þingmanna allra flokka.

Við fjárlagagerð fyrir árið 2007 ákvað þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að stefna að níu milljarða afgangi á rekstri ríkissjóðs til þess að vinna gegn þenslu. Einn af þingmönnum stjórnarflokkanna, Einar Oddur Kristjánsson, gagnrýndi þetta markmið. Hann taldi að afgangurinn þyrfti að vera margfalt meiri ella myndi ofþenslan enda með ósköpum.

Þau tímamót urðu við þessa fjárlagagerð að stjórnarandstaðan, Samfylkingin og VG, sameinuðust um stefnu í ríkisfjármálum. Hún gekk út á að eyða þeim litla og ónóga afgangi sem ríkisstjórnarflokkarnir þó höfðu náð. Engu var líkara en þeir tryðu því að ríkissjóðstekjur sem byggðust á viðskiptahalla væru heilbrigðar og varanlegar. Þeir töldu enga þörf á aðhaldi í ríkisfjármálum gegn þenslu.

Allt bendir þetta til að í aðdraganda hrunsins hafi hugmyndafræðilegur ágreiningur verið minni en af er látið.

Um hvað greinir menn nú á?

Er þá enginn hugmyndafræðilegur ágreiningur? Jú, hann er fyrir hendi. Segja má að hann komi fyrst og fremst fram í skattamálum og að því er varðar orkunýtingu.

Hugmyndir um markmið og leiðir við endurreisn efnahagslífsins voru ekki mikið til umræðu í síðustu kosningum. En að svo miklu leyti sem draga má ályktanir af kosningaumræðunni sýnast grundvallarhugmyndir Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks á þessum sviðum vera innan brúanlegra marka.

VG fylgir annarri hugmyndafræði. Hún felst einfaldlega í andstöðu við markvissa nýtingu orkulinda til þess að vinna þjóðina út úr kreppunni með verðmætasköpun. Í skattamálum leggur flokkurinn mesta áherslu á aðferðir sem hamla verðmætasköpun, frumkvæði og erlendri fjárfestingu.

Breytingin er sú að VG hefur tekist að draga Samfylkinguna til vinstri á þessum málasviðum. Á þessum afmörkuðu sviðum er verið að fara hugmyndafræðilega lengra til vinstri en dæmi eru um áður. Fyrir vikið verða pólitísk átök um þessi mikilvægu mál meiri en vera þyrfti.

Kjósendur máttu vitaskuld gera sér grein fyrir því að á þennan veg myndi fara. En það breytir ekki hinu að ætla má að stærri hluti kjósenda sé nær miðjulausnum bæði í skattamálum og orkumálum. Að því leyti endurspegla ákvarðanir Alþingis á þessum sviðum ekki hugmyndaágreining kjósenda.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×