Innlent

Hver er þessi Ólafur F. Magnússon?

Ólafur F. Magnússon, verðandi borgarstjóri.
Ólafur F. Magnússon, verðandi borgarstjóri.

Ólafur Friðrik Magnússon, verðandi borgarstjóri í Reykjavík er fæddur á Akureyri þann 3. ágúst 1952. Ólafur er læknir að mennt og hann á fjögur börn með Guðrúnu Kjartansdóttur. Ólafur varð stúdent frá MH árið 1972 og hann lauk embættisprófi í læknisfræði við HÍ árið 1978.

Ólafur sinnti aðstoðarlæknisstörfum á námsárum sínum á Landspítala og á fæðingarheimili Reykjavíkur. Að námi loknu sinnti Ólafur læknisstörfum hér á landi uns hann fór í sérnám til Svíþjóðar. Að sérnámi loknu hóf hann störf sem sjálfstæður heimilislæknir í Reykjavík.

Ólafur hóf afskipti af pólitík með störfum í hverfafélögum Sjálfstæðisflokksins auk þess sem hann sat í stjórn Heilbrigðis- og tryggingamálanefndar Sjálfstæðisflokksins árið 1990 til 1995. Hann var varaborgarfulltrúi flokksins í átta ár, frá 1990 til 1998 og borgarfulltrúi 1998 til 2001.

Ólafur stofnaði félagsskapinn Umhverfisvini árið 1999 og það voru ekki síst áherslur Ólafs á umhverfismál sem urðu til þess að hann hraktist úr Sjálfstæðisflokknum í desember 2001, en þær hugmyndir Ólafs fengu heldur lítinn hljómgrunn þar á bæ á þeim tíma.

Ólafur sagðist þá knúinn til þess að hætta í flokknum og sagði hann í viðtali við Morgunblaðið að teningunum hafi verið kastað á landsfundi Sjálfstæðisflokksins það ár en þá bar hann upp sáttatillögu í virkjanamálum sem var tekið fálega og raunar var beinlínis hlegið að tillögum hans.

Eftir að Ólafur sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum sat hann áfram sem óháður borgarfulltrúi til loka kjörtímabilsins. Í kosningunum árið 2002 tók hann efsta sæti á lista Frjálslyndra og óháðra og komst hann inn í borgarstjórn á síðustu stundu eins og frægt er orðið. Í síðustu kosningum fékk flokkur Ólafs um tíu prósent atkvæða og rekja margir þá góðu útkomu til eindregnar afstöðu Ólafs í flugvallarmálinu en hann var eini stjórnmálamaðurinn sem lýsti því yfir að flugvöllur ætti að vera í Vatnsmýri um aldur og eilífð.

Eftir þá góðu útkomu héldu sumir, þar á meðal Ólafur sjálfur, að meirihluti yrði myndaður með þáttöku sjálfstæðismanna og Ólafs. Annað kom á daginn og sjálfstæðismenn náðu samkomulagi við Björn Inga Hrafnsson, framsóknarflokki.

Á þeim tíma var Ólafur afar ósáttur við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og taldi hann hafa svikið sig þegar hann náði samkomulagi við Björn Inga á sama tíma og hann hélt Ólafi heitum.

Haustið 2006 tók Ólafur sér frí frá borgarmálunum vegna veikinda sem hann hefur aldrei tjáð sig um á opinberum vettvangi. Margrét Sverrisdóttir tók sæti hans í borgarstjórn og hún gegndi embætti forseta borgarstjórnar þegar nýr meirihluti var myndaður í lok árs 2007 þegar Björn Ingi Hrafnsson ákvað að slíta meirihlutasamstarfi hans og sjálfstæðismanna.

Þá var þess getið að Ólafur hefði komið með virkum hætti að myndun meirihlutans þrátt fyrir veikindin og var hann kallaður guðfaðir hins nýja meirihlutasamstarfs. Í nóvember tilkynnti Ólafur síðan um endurkomu sína í borgarstjórn og tók við embætti forseta borgarstjórnar, eftir að hann hafði skilað inn vottorði um að hann væri orðinn heill heilsu, sem hann hefur gegnt þar til nú.


Tengdar fréttir

Margrét segir vinnubrögð Ólafs forkastanleg

Margrét Sverrisdóttir varaborgarfulltrúi Frjálslyndra segir að vinnubrögð Ólafs F. Magnússonar við myndun nýs meirihluta hafi verið forkastanleg. Og það sé alveg ótækt að Ólafur hafði ekkert samband við bakland sitt í flokknum áður en hann tók þessa ákvörðun sína. það liggur ljóst fyrir að nýr meirihluti í borgarstjórn nýtur ekki fylgis Margrétar sem raunar segist ætla að fella hann við fyrsta tækifæri. Þetta kom fram í þættinum Í Bítið á Bylgjunni í morgun.

Ingibjörg: Óheillaspor fyrir borgarbúa

Ráðherrum ríkisstjórnarinnar líst misvel á nýjan meirihluta í Reykjavík. Að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun gáfu nokkur þeirra færi á sér og svöruðu spurningum blaðamanna. Önnur vildu ekki tjá sig. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar segir að sér lítist illa á breytingarnar en Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir að sér lítist vel á gjörninginn.

Væri ekki borgarstjóri ef kosið yrði í dag

Frjálslyndiflokkurinn kæmi ekki manni að í borgarstjórn ef marka má skoðanakönnun sem Fréttablaðið lét gera fyrir tólf dögum síðan. Þar var hringt í 600 Reykvíkinga af handahófi úr þjóðskrá.

Borgarbúar að sigla inn í pólítískan ólgusjó?

„Þetta er óvænt," segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna í Reykjavík aðspurður um fréttir dagsins af nýjum meirihluta í borginni. „í fyrsta lagi er mönnum ekki fulljóst á hvaða forsendum Ólafur F. Magnússon slítur meirihlutanum. Eftir því sem ég fregna hefur ekki komið fram af hans hálfu skýr málefnalegur ágreiningur í samstarfinu. Í öðru lagi spyrja menn um framhaldið því varamaður Ólafs er hlyntur núverandi stjórnarmynstri, að minnsta kosti eftir því sem ég best veit," segir Ögmundur.

„Ég er með eitthvað meira en hnífasett í bakinu“

„Ég er mjög undrandi yfir þessu og þetta er í engu samræmi við það sem Ólafur F sagði félögum sínum í dag," segir Björn Ingi Hrafnsson yfir þeim tíðindum að búið sé að mynda nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Tuttugu mínútur í sjö

Ólafur F Magnússon hringdi í Dag B Eggertsson borgarstjóra tuttugu mínútum áður en nýr meirihluti í borgarstjórn var kynntur á blaðamannafundi á Kjarvalsstöðum klukkan 19:00. Þetta kom fram í viðtali við Dag á Stöð 2 fyrir stundu.

Mikilvægt að Ólafur F sé við fulla heilsu

Ólafur Þ Harðarson prófessor í stjórnmálafræði segir borgarbúa ekki eiga neina heimtingu á því að boðað verði til kosninga. Ólafur sagði að sveitastjórnir þyrftu að sitja öll sín fjögur ár og það væri borgarfulltrúanna að mynda meirihluta. Þetta sagði Ólafur í samtali við Fréttastofu Sjónvarpsins nú í kvöld.

Ólafur aleinn í meirihlutamyndun

Margrét Sverrisdóttir varaborgarfulltrúi F-listans segist í samtali við Vísi að Ólafur F Magnússon hafi hvorki ráðfært sig við hana eða aðra meðlimi listans áður en hann ákvað að fara í meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokknum.

Sex borgarstjórar á fimm árum

Sex borgarstjórar hafa setið í Reykjavík á aðeins fimm árum eftir nýjustu sviptingar í borgarmálunum þar sem Ólafur F. Magnússon, oddviti F-lista, sleit samstarfi við gömlu R-listaflokkana og gekk til samstarfs við Sjálfstæðislflokkinn.

Farsakenndur dagur

"Þessi dagur hefur einkennst af vantrú og er eiginlega hálfgerður farsi...," sagði Dagur B. Eggertsson fráfarandi borgarstjóri í samtali við Stöð 2 nú rétt í þessu.

Funduðu heima hjá Kjartani

Nýr meirihluti borgarstjórnar var myndaður heima hjá Kjartani Magnússyni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Kjartan býr að Hávallagötu 42 í Reykjavík.

Björn Ingi lagði grunn að valdaleysi sínu með svikum við D-flokk

„Aldrei var nein samstaða innan þess hóps, sem myndaði meirihluta á rústum OR/REI fyrir 100 dögum og þar sem Dagur B. Eggertsson varð borgarstjóri. Hópurinn hefur ekki getað lagt fram málefnaskrá og lét reka á reiðanum í fjölda mála“ skrifar Björn Bjarnason dómsmálaráðherra á heimasíðu sína nú í kvöld í kjölfar nýs meirihluta í borgarstjórn.

Ólafur hefur ekki getað sinnt starfi sínu til þessa

„Mér finnst þetta hörmulegt," segir Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi þegar hún er spurð út í fréttir af nýjum meirihluta. Hún segir að nú sé uppi stjórnarkreppa í borginni. „Það er ekki hægt að byggja meirihluta á manni sem hefur ekki eirð í sér til þess að sitja einn heilan borgarstjórnarfund," segir Björk og bætir við: „Ólafur hefur aldrei getað sinnt því að vera borgarfulltrúi í fullu starfi og því get ég ekki ímyndað mér að hann valdi borgarstjórastarfinu."

„Sjálfstæðismenn eru búnir að gera í buxurnar“

Sverrir Hermannson, fyrrverandi ráðherra og stofnandi Frjálslynda flokksins sagðist ekki skilja þá þróun sem orðið hefur í borgarmálunum í dag. „Ég veit ekkert nema það sem kemur í fjölmiðlum og ég átta mig ekki á hvað sjálfstæðismenn eru að hugsa, þeir eru líklegast orðnir eitthvað ruglaðir í kollinum. Þeir eru búnir að gera svoleiðis í buxurnar upp á síðkastið.“

„Ólafi F. Magnússyni er ekki treystandi“

„Ég er nokkuð viss um að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki búinn að bíta úr nálinni með að binda sitt trúss við Ólaf F. Magnússon sem hefur sýnt það í verki að það er ekki einu orði að treysta því sem hann segir pólitískum samstarfsmönnum sínum,“ segir Össur Skarphéðinsson ráðherra Samfylkingarinnar sem staddur var í Abu Dabí þegar Vísir náði á hann fyrir stundu.

Nýi meirihlutinn í beinni á Vísi

Blaðamannafundur nýja meirihlutans í borginni er í beinni útsendingu á Vísi.is. Hægt er að horfa á hann með því að smella hér.

Nýr meirihluti boðar blaðamannafund klukkan 19:00

Sjálfstæðisflokkurinn hefur myndað nýjan meirihluta með Ólafi F. Magnússyni borgarfulltrúa Frjálslyndaflokksins. Nýr meirihluti hefur boðað til blaðamannafundar á Kjarvalsstöðum klukkan 19:00.

Ólafur F. nýr borgarstjóri

Á blaðamannafundi sem nú stendur yfir hjá nýjum borgarmeirihluta á Kjarvalsstöðum kom fram að Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi F-listans verður borgarstjóri á fyrri hluta kjörtímabilsins. Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson mun vera borgarstjóri á síðari hluta kjörtímabilsins.

Neitaði að tjá sig um heilsuna

Ólafur F Magnússon nýr borgarstjóri Reykvíkinga neitaði að svara spurningum fjölmiðla um heilsu sína. Honum fannst spurningin óveiðeigandi en mikið hefur verið rætt um heilsu Ólafs F eftir að hann tók sæti í borgarstjórn Reykjavíkur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.