Viðskipti erlent

Hitnar í kolunum hjá Carnegie, forstjórinn hættir

Anders Fällman forstjóri móðurfélags Carnegie bankans hefur látið af störfum. Þessa ákvörðun tók hann eftir að Bo Lundgren forstjóri Lánastofnunnar sænska ríkisins (Riksgälden) hraunaði yfir hann í sjónvarpsviðtali fyrir helgina. Milestone á hlut í Carnegie í gegnum félag sitt Moderna Finans.

Carnegie hefur höfðað mál á hendur Riksgälden þar sem bankinn telur að ólöglega hafi verið staðið að yfirtöku sænska ríkisins á bankanum og líftryggingarfélagi bankans, Max Matthiesen.

Í umfjöllun Dagens Industri um málið í morgun segir Fällman að hann hafi tekið þá ákvörðun að láta af störfum til að málsóknin myndi ekki snúst um persónu hans heldur hagsmuni bankans og hluthafa hans.

Í kjölfar málssóknarinnar efndi Bo Lundgren forstjóri Riksgälden til blaðamannafundar síðdegi á föstudag. Þar sagði Lundgren að málshöfðunin væri örvæntingarfull tilraun stjórnenda Carnegie að fría sig ábyrgð á því að bankinn komst í þrot. Sagði Bo að Fällman hefði rænt bankanum og haldið honum í gíslingu.

Fällman segir einnig að hann sé móðgaður yfir orðum Lundgren og hann sé móðgaður fyrir hönd 7.000 hluthafa bankans. Þeir séu aðeins að reyna að fá á hreint hvort farið hafi verið að lögum við yfirtöku bankans eða ekki.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×