Viðskipti erlent

Sveitarfélögin fá einn milljarð kr. aukalega úr ríkissjóði

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur eftir forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar að aukaframlag að fjárhæð 1,0 milljarður króna verði í þeim fjárlögum sem endanlega verða samþykkt og að ekki verði gerðar breytingar á álagningarhlutfalli fasteignaskatts á ríkiseignir.

Jafnframt standi til að heimila sveitarfélögum 0,25% stiga hækkun útsvars á næsta ári sem þýðir að hámarksútsvarsálagning getur numið 13,28% á næsta ári.

Þegar endurskoðað fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár var kynnt á fréttamannafundi í morgun var m.a. greint frá því að aukaframlagið myndi falla niður að óbreyttu á næsta ári en veitt yrði heimild til sveitarfélaga í lögum að hækka útsvar svo þau gætu bætt sér upp þann tekjumissi.

Aukaframlagið nam 1,4 milljarði króna á þessu ári. Ekki var getið um hve há útsvarshækkunin yrði í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Fjallað er um málið á heimasíðu sambandsins og þar segir að vegna áforma fjármálaráðuneytisins um að fella niður aukaframlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í fjárlögum næsta árs og lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á ríkiseignir hafa fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga lagt þunga áherslu á við ráðherra og þingmenn undanfarna daga og vikur að horfið verði frá þeirri fyrirætlan.

Í gærkveldi og aftur í morgun var það staðfest við Halldór Halldórsson, formann sambandsins, af hálfu forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar að fallist yrði að mestu á kröfur sveitarfélaganna í þessum efnum.

„Sveitarstjórnarmenn eiga að geta treyst þessum niðurstöðum. Þetta þýðir að vísu 400 milljóna króna lækkun aukaframlagins úr jöfnunarsjóði sem kallar á endurskoðun regla um úthlutun þess svo tryggja megi að það renni til þeirra sveitarfélaga sem hafa mesta þörf fyrir það", segir Halldór.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×