Innlent

Tæpar 60 milljónir í málvarnarkostnað í Baugsmáli

Ríkissjóður greiðir verjendum í hinu upphaflega Baugsmáli tæpar 58 milljónir króna í laun og útlagðan kostnað. Þá er ótalinn kostnaður vegna rannsóknar málsins.

Hinu upphaflega Baugsmáli lauk með sýknu allra fjögurra sakborninga í Hæstarétti í gær. Í dómi réttarins eru tiltekin málsvarnarlaun verjenda.

Stærsta hlutinn fær verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Gestur Jónsson, eða 15 milljónir. Einar Þór Sverrisson, verjandi Jóhannesar í Bónus, fær 6 milljónir króna í málsvarnarlaun en verjandi dóttur hans, Kristínar Jóhannesdóttur, Kristín Edwald lögmaður fær 7,2 milljónir króna.

Jakob R. Möller, verjandi Tryggva Jónssonar, fær 4,4 milljónir að launum og Þórunn Guðmundsdóttir sem varði Stefán Hilmar Stefánsson og Önnu Þórðardóttur endurskoðendur hlýtur 8,2 milljónir í málsvarnarlaun.

Tæpar 17 milljónir eru einnig greiddar úr ríkissjóði vegna kostnaðar sem sýknuðu hafa haft af öflun sérfræðiálita. Samtals gera þetta tæpar 58 milljónir króna sem ríkissjóður reiðir fram vegna þessa anga Baugsmálsins. Þá er ótalinn kostnaður ákæruvaldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×