Íslenski boltinn

Eins og þrír erfiðir landsleikir

Í dag klukkan 13 mæta Íslandsmeistarar Vals finnska liðinu FC Honka Espoo í fyrstu umferð Evrópukeppni kvenna í knattspyrnu. Riðill Vals verður leikinn í Færeyjum og klárast á þriðjudaginn kemur.

Valsliðið var komið til Færeyja í fyrrakvöld og að sögn Margrétar Láru Viðarsdóttur, leikmanns liðsins og helsta markaskorara, verður það ekki létt verkefni að komast áfram í aðra umferð en aðeins eitt lið kemst áfram.

„Þetta var sennilegasta erfiðasti riðillinn sem við gátum fengið," sagði hún, en ásamt finnska liðinu og heimamönnunum í KÍ frá Klaksvík mætir Valur einnig Hollandsmeisturum Den Haag.

„Við verðum að líta á alla þessa leiki sem landsleiki og verðum við að mæta 100% einbeittar til leiks til að eiga möguleika á að komast áfram. Við vitum svo sem lítið um liðin sem við erum að fara að mæta en þekkjum hollenska landsliðið og önnur finnsk lið. Hollensk og finnsk kvennaknattspyrna er á mikilli uppleið og komst finnska landsliðið til að mynda alla leið í undanúrslit á EM í Englandi árið 2005 eftir að hafa í fyrsta sinn komist á stórmót í knattspyrnu."

Hún segir það ágætt að mæta finnsku meisturunum strax í fyrsta leik. „Við erum óþreyttar og fínt að byrja þetta á hörkuleik. Þetta er verðugt verkefni en einnig mjög skemmtilegt."

Valsstúlkur komu mjög á óvart fyrir tveimur árum er þær unnu sinn riðil í fyrstu umferð Evrópukeppninnar sem þá fór fram í Finnlandi. Margrét Lára segir að nú séu þær ekki lengur vanmetnar.

„Við vorum óþekkt stærð þá en íslensk kvennaknattspyrna er ekki lengur vanmetin."

Á laugardaginn mætir Valur færeysku meisturunum og svo Den Haag á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×