Körfubolti

Undanúrslitin hefjast annað kvöld

Njarðvíkingar eru núverandi meistarar í fyrirtækjabikar KKÍ
Njarðvíkingar eru núverandi meistarar í fyrirtækjabikar KKÍ Mynd/Stefán Karlsson

Í dag var haldinn blaðamannafundur vegna undanúrslitaleikjanna í karla- og kvennaflokki í fyrirtækjabikar KKÍ sem nefnist Powerade bikarinn að þessu sinni. Keppni þessi hefur verið árviss viðburður í tíu ár og ráðast úrslitin um næstu helgi í Laugardalshöllinni.

Annað kvöld fara fram í Laugardalshöllinni undanúrslitaleikirnir í karlaflokki en þá mætast Skallagrímur og Keflavík klukkan 19 og svo Njarðvík og KR klukkan 21. Kvöldið eftir, fimmtudagskvöld, fara fram undanúrslitin í kvennaflokki þar sem Haukar mæta ÍS klukkan 19 og Keflavík og Grindavík klukkan 21.

Úrslitaleikurinn í kvennaflokki fer svo fram klukkan 14 á laugardag og karlaleikurinn verður spilaður klukkan 16.

Fyrirtækjabikarkeppni kvenna var sett á árið 2000 og er þetta því í sjöunda skipti sem keppt er í kvennaflokki. Keflavíkurstúlkur hafa oftast sigrað í keppninni eða þrisvar - og gerðu það með því að vinna þrjú ár í röð á árunum 2002-2004. Haukar eru núverandi Powerade meistarar í kvennaflokki.

Í ár er keppt í ellefta sinn í fyrirtækjabikarnum í karlaflokki og þar hafa Keflvíkingar unnið oftast, fjórum sinnum. Liðið vann sigur í keppninni fyrstu þrjú árin sem hún var haldin, en hefur aðeins einu sinni hampað þessum bikar frá því árið 1999. Njarðvíkingar hafa þrisvar unnið keppnina og Tindastóll, Grindavík og Snæfell einu sinni hvert. Njarðvíkingar eru handhafar bikarsins síðan í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×