Fastir pennar

Málefni, málþóf og kosningar

Venja hefur staðið til þess að ljúka þingstörfum í hæfilegum tíma fyrir sveitarstjórnarkosningar. Starfsáætlun Alþingis gerði ráð fyrir að svo yrði einnig að þessu sinni. En ekki verður ávallt á allt kosið.

Þingmenn áttu ýmislegt ósagt þegar að lokadegi kom. Niðurstaðan varð sú að fresta fundum Alþingis fram á sumar. Eru það skynsamleg viðbrögð? Á ýmislegt er að líta í því efni.

Alla jafna er það svo að vilji ríkisstjórna stendur helst til þess að hafa þinghald sem styst. Þær vilja garnan losa sig við þingið. Ástæðan er einföld: Stjórnarandstaðan er vettvangslaus þegar þingstörf liggja niðri. Hún knýr því yfirleitt á um lengra þinghald og styttri þinghlé.

Þetta á ekki sérstaklega við núverandi ríkisstjórn. Fremur má segja að þetta sé algild tilhneiging í reiptogi stjórnar og stjórnarandstöðu á öllum tímum. Reyndar fer því fjarri að þetta sé sérstakt íslenskt fyrirbrigði. Víða erlendis eru þó sterkari hefðir um þingtíma. Árlegur þingtími er þannig í flestum tilvikum lengri en hér tíðkast. Ef til vill eru þar minni áhöld um þinglausnir af þeim sökum.

Um allnokkurt árabil hefur gætt tilhneigingar til þess að stytta þingtímann og lengja þinghlé. Hefðbundin sjónarmið sýnast helst hafa legið þar að baki. Stjórnarandstaðan hefur ekki andæft þessari þróun. Vera má að hún hafi ekki talið sig hagnast á lengra þinghaldi. Sú ályktun gengur þó gegn lögmálinu.

Sú spurning vaknar réttilega vegna þeirrar ákvörðunar sem nú hefur verið tekin hvort yfirleitt sé gild ástæða til þess í nútímaþjóðfélagi að sníða starfsáætlanir Alþingis að sveitarstjórnarkosningum eins og hefð er fyrir. Ástæða er til að draga það í efa. Þannig var ráð fyrir því gert að störf þingsins féllu niður áður en framboðsfrestur vegna sveitarstjórnarkosninganna rynni út.

Þó að eiginleg kosningabarátta hafi styst hér á síðustu áratugum er hún eigi að síður lengri en almennt gerist í Evrópu. Ekkert hlé var til dæmis gert á störfum breska þingsins vegna sveitarstjórnarkosninga sem fram fóru á Bretlandi í gær.

Með hliðsjón af gömlum siðum gæti verið hæfilegt að miða starfsáætlun Alþingis við að gera hlé á störfum þess viku fyrir sveitarstjórnarkosningar. Rúmar þrjár vikur eru í engu samhengi við nútímann.

Ríkisstjórnin kennir málþófi stjórnarandstöðunnar um að mál hennar hafa ekki öll náð fram að ganga á þessum tímapunkti. Ugglaust er talsvert til í því. Þó að málþóf skili sjaldnast miklu til röksemdafærslunnar er það eigi að síður hluti af því lýðræðislega jafnvægi sem sérhver löggjafarsamkoma byggir á. Við það verða allar ríkisstjórnir að sætta sig.

Mál geta einnig verið þannig vaxin að gildar málefnaástæður kunna að vera til þess að taka lengri tíma en starfsáætlun segir til um til þess að skoða þau og ræða. Það hlýtur að fara eftir atvikum, einkum þegar þingtíminn er stuttur.

Þá sjaldan að halda hefur þurft sumarþing eins og nú er áformað hafa þingstörf haft tilhneigingu til þess að dragast nokkuð á langinn. Það er einfaldlega jafn gott að teygja lopann á sumrin eins og í annan tíma.

En hvað sem því líður var að öllu virtu skynsamlegt að taka lengri tíma til umþóttunar og umræðu um ýmis þau mál sem verið hafa á dagskrá þingsins. Sum þingmál eru einfaldlega enn óþroskuð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×