Innlent

Bera ekki ábyrgð á ráðherra

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að flokkurinn geti ekki borið ábyrgð á dómsmálaráðherra, sem tjái sig með þeim hætti sem Björn Bjarnason gerir á heimasíðu sinni um niðurstöður Hæstaréttar í Baugsmálinu. En þar segir Björn að réttarkerfið hafi ekki sagt sitt síðasta orð í málinu. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins og Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar og þingmaður, sátu fyrir svörum í Íslandi í bítið í morgun. Þar voru þeir spurðir um niðurstöðu Hæstaréttar. Kristinn sagði það afgerandi niðurstöðu hjá Hæstarétti að ákæruvaldinu tækist ekki að lýsa verknaði hinna ákærðu og þar sem verknaði væri lýst, tækist ákæruvaldinu ekki að lýsa meintum afbrotum. Þetta væri alvarleg niðurstaða. Ágúst Ólafur sagði niðurstöðu Hæstaréttar vera alvarlegan áfellisdóm og í hvaða landi sem væri í kringum okkur, væru menn sem klúðruðu málum með þessum hætti, látnir sæta ábyrgð. Í Ísland í bítið í morgun var vísað til þeirra ummæla Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, á heimasíðu ráðherrans, þar sem hann segir efnislega að réttarkerfið hafi ekki sagt sitt síðasta orð í þessum málum. Þessi ummæli telur Kristinn ekki við hæfi hjá yfirmanni dómsmála í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×