Innlent

Krafan þingfest í næstu viku

Lögbannskrafa á tölvupóst tengdan Jónínu Benediktsdóttur, sem Fréttablaðið birti brot úr, verður að öllum líkindum þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku. Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Jónínu, segist munu leggja fram stefnu í málinu á fimmtudaginn. Þó sé hins vegar óljóst hvenær málið verður tekið til meðferðar þar sem lögmenn Fréttablaðsins geta beðið um frest til að leggja fram greinargerð. Jón Magnússon, lögmaður 365 prentmiðla, segir að hann muni nýta sér sem stystan frest; einungis biðja um viku til að leggja fram greinargerð varnaraðila. Því má búast við því að sú greinargerð liggi fyrir á fimmtudaginn í næstu viku. Þá fær Héraðsdómur málið til meðferðar og ef málið fær venjulega meðferð má búast við því að dómur liggi fyrir um eða eftir áramót. Verði niðurstöðunni þá áfrýjað til Hæstaréttar, á hvorn veginn sem hún verður, þá má allt eins búast við því að endanleg niðurstaða liggi ekki fyrir í málinu fyrr en á vordögum 2006. Jón segist að vísu ætla að krefjast flýtimeðferðar. Fái hann það í gegn gæti endanleg niðurstaða fengist fljótlega eftir áramót. Þangað til gildir lögbannið til bráðbirgða og Fréttablaðinu óheimilt að byggja fréttir á tölvupóstum tengdum Jónínu Benediktsdóttur. Í lögum um lögbann kemur fram að lögbann standi þó héraðsdómur hnekki því í þrjár vikur eftir úrskurðinn. Það er frestur sóknaraðila til að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Sé málinu áfrýjað á þeim tíma framlengist lögbannið til bráðabirgða þar til endanleg niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×