Innlent

Þurfti ekki aðstoð Morgunblaðsins

Jón Gerald Sullenberger segist hafa haft efni á því að greiða fyrir þýðingu á skjali sem Morgunblaðið þýddi fyrir hann ókeypis. Hann hafi ekki þurft á fjárhagslegri aðstoð Morgunblaðsins að halda. Jón Gerald segir það rangt sem komið hefur fram að hann hafi ekki átt pening til að láta þýða fyrir sig skjöl í aðdraganda Baugsmálsins. Fréttablaðið greindi frá því á laugardaginn að Styrmir Gunarsson, ritsjóri Morgunblaðsins, hefði ekki aðeins ráðlagt Jóni Gerald um lögfræðing heldur líka látið þýða fyrir hann enskan texta, án greiðslu. Styrmir skrifaði daginn eftir um málið á síðum Morgunblaðsins og sagði meðal annars að þarna hefði verið um að ræða einstakling með lítið fjárhagslegt bolmagn, sem hafi átt í deilum við eitt stærsta fyrirtæki á Íslandi. Og það væri dýrt að láta löggiltan skjalaþýðanda þýða texta. Þegar fréttamaður spurði Jón Gerald um hvernig hann hefði haft bolmagn til að greiða Jóni Steinari Gunnlaugssyni lögmannsþóknun, á sama tíma og hann hefði ekki haft efni á einfaldri þýðingu, svaraði hann því þannig að þetta væri einfaldlega rangt. Hann hefði átt pening og ekki þurft á fjárhagslegri aðstoð Morgunblaðsins að halda. Hann segir að ef svo hefði borið undir hefði hann selt húsið sitt og allar eignir til að geta ráðið Jón Steinar til starfa. Þótt hann hafi verið í viðskiptakröggum hafi hann aldrei verið svo aumur að hafa ekki getað leitað réttar síns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×